Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Elísabet með röddina varð ungamamma söngvara

Mynd: RUV_mynd / RUV_mynd

Elísabet með röddina varð ungamamma söngvara

06.04.2019 - 15:08

Höfundar

Nú er diskasettið Söngvaglóð með upptökum af söng Elísabetar Erlingsdóttur komið út. Upptökurnar, sem geyma íslenska og erlenda söngtónlist, voru gerðar í Ríkisútvarpinu en það er útgáfufyrirtækið Polarfonia sem gefur út.

Elísabet var einn farsælasti söngkennari Íslands um árabil og fjölhæf sópransöngkona sem frumflutti fjöldann allan af íslenskri tónlist. Í menntaskóla var hún stundum kölluð Elísabet með röddina og skyldi engan undra því að hún bjó yfir miklum hæfileikum á því sviði. Hún stundaði í framhaldinu söngnám við Tónlistarháskólann í München í Þýzkalandi um sex ára skeið þaðan sem hún lauk prófi í einsöng og söngkennslu árið 1968. Á námsárunum kom hún fram í óperu-uppfærslum en heim komin lagði hún einkum fyrir sig tónlistarkennslu. Fyrst kenndi hún við Tónlistarskóla Kópavogs og síðan Tónlistarskólann í Reykjavík. Frá stofnun tónlistardeildar Listaháskólans hafði hún yfirumsjón með menntun einsöngvara við skólann, en hún lést árið 2014, 74 ára að aldri. 

Rætt var við Önnu Rún Atladóttur, dóttur Elísabetar, um útgáfuna í Víðsjá og gripið var niður í gamlan þátt þar sem Elísabet var kvöldgestur Jónasar Jónassonar.

Menningarverðmæti

Nýja útgáfan heitir Söngvaglóð en Anna Rún Atladóttir segir móður sína hafa verið farna að leggja drög að útgáfunni fyrir andlátið. „Þegar hún lést þá var hún búin að vera að hlusta á rosalega margar upptökur með söng sínum hér í Ríkisútvarpinu frá yfir 20 ára tímabili. Hún var búin að velja hluta af þessu og farin að leggja drög að útgáfunni. Mér finnst frábært að hlusta á þetta en ég neita því ekki að það tók á fyrir okkur að leggja lokahönd á þetta og því dróst útgáfan. Fyrsta árið var þetta svolítið erfitt en núna þykir mér mjög gaman að þetta sé komið út. Mér finnst við vera að bjarga menningarverðmætum með því að koma þessu á framfæri,“ segir Anna Rún en útgáfufyrirtækið Polorgonia hefur verið ötult við að koma upptökunum úr hirslum Ríkisútvarpsins á síðustu árum í samvinnu við stofnunina. 

Frumflutti fjölmörg lög

Einn diskanna er tileinkaður verkum sem Elísabet frumflutti og voru oftar en ekki samin fyrir hana. Þar er tónlist eftir Þorkel Sigurbjörnsson, Atla Heimi Sveinsson og Karl Ottó Runólfsson svo einhver tónskáld séu nefnd. Jafnframt er að finna í safninu upptökur af Elísabetu þar sem Jórunn Viðar situr við píanóið og túlkar eigin tónlist. Þar má einnig finna upptökur með verkum þekktra erlendra tónskálda Schuberts, Brahms, Grieg og Sibeliusar, auk þess sem safnið geymir upptökur sem ekki eru til með mörgum íslenskum listamönnum á sönglögum Albans Berg og Charles Ives.

Mikilvægur kennari

Elísabet var farsæll söngkennari en fjölmargir nemendur hennar lögðu sönglistina fyrir sig og bera henni fagran vitnisburð í bæklingi sem fylgir þessari glæsilegu útgáfu. „Það er fullt af fólki sem lærir söng en hún kenndi mörgum sem síðar urðu söngvarar. Hún var eiginlega bara hálfgerð ungamamma, tók fólk algjörlega að sér. Kona með afskaplega stórt hjarta.“

Hér fyrir ofan má heyra brot af söng Elísabetar en í lok umfjöllunarinnar má heyra hana flytja En Dröm eftir Edward Grieg ásamt Selmu Guðmundsdóttur. Auk þess heyrast í umfjölluninni brot úr þættinum Kvöldgestir sem Jónas Jónasson hafði umsjón með um árabil en Elísabet var gestur hans árið 1992.

Tengdar fréttir

Tónlist

Sækja í tónlist úr fortíðinni

Klassísk tónlist

Ópera frumflutt 90 árum eftir lát höfundar

Dans

Vorblót í Reykjavík

Popptónlist

„Týnda platan“ hans Marvins Gaye komin út