Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Elísabet II opnar sig í heimildarmynd BBC

Mynd: EPA  / EPA

Elísabet II opnar sig í heimildarmynd BBC

13.01.2018 - 17:00

Höfundar

Í nýrri óvenjulega opinskárri heimildarmynd frá BBC segir Elísabet Englandsdrottning frá upplifun sinni af krýningardeginum árið 1953, auk þess sem hún fer í saumana á þýðingu þeirra veglegu krúnudjásna sem fylgja titlinum. Þetta er í fyrsta sinn sem drottningin veitir viðtal af þessu tagi.

Drottningin hefur verið nokkuð í umræðunni síðustu misserin, en stærsta og dýrasta verk Netflix til þessa, leiknu þættirnir The Crown, fjalla um einkalíf drottningar og ævihlaup. Þættirnir eru að stóru leyti endursögn og sviðsetning á sögulegum atburðum þó að víða sé getið í eyðurnar í persónulegum málum.

Drottningin ánægð með The Crown

Nú hafa tvær seríur verið framleiddar sem dekka árin 1947-1964, sú seinni kom út í lok árs 2017, en von er á sex þáttaröðum í heildina sem telja í það heila sextíu þætti. Þættirnir njóta mikilla vinsælda og hafa hlotið lof meðal gagnrýnenda og almennings. Þó ber kannski hæst að nefna að samkvæmt heimildum bresku pressunnar hefur drottningin sjálf horft á fyrstu seríu þáttanna og er að sögn afskaplega ánægð með útkomuna.

Óþægileg gullkerra

Mögulega hafa þættirnir The Crown orðið einhvers konar kveikja að þeirri ákvörðun drottningar að veita fjölmiðlum aukið aðgengi og veita persónuleg viðtöl af því tagi sem birtast í heimildarmynd BBC. Í viðtölunum kemur hún meðal annars inn á það hversu óþægilegt hafi verið að sitja í fjögurra tonna gullkerru á leiðinni til Westminster Abbey, þar sem krýningin fór fram og allir enskir þjóðhöfðingjar hafa verið krýndir frá árinu 1066.

Krúnudjásn falin í kexdollu

Einnig ræðir hún nákvæman felustað krúnudjásnanna í seinna stríði, en var þeim haganlega komið fyrir í kexdollu sem grafin var í jörðu undir leynilegum inngangi í Windsor-kastala. Það eru að mestu leyti nýjar upplýsingar, en nákvæmur felustaður krúnudjásnanna í stríðinu hefur aldrei áður komið fram.

Hætta á hálsbroti

Einnig segir drottningin frá áskorunum sem hún hefur glímt við í starfinu, til að mynda hinni veglegu 1,3 kílógramma kórónu sem hún þarf að bera við setningu þingsins, og að þegar hún flytji ræðu sína við það tilefni geti hún ekki hallað höfðinu niður á við vegna hættu á hálsbroti.

„Þú getur ekki litið niður þegar þú lest ræðuna, þú þarft að færa ræðuna ofar. Ef þú lítur niður þá geturðu hálsbrotnað, hausinn af,“ segir drottningin í kynningarefni myndarinnar. „Þannig að kórónum fylgja ýmsir ókostir, en annars eru þær nokkuð mikilvæg fyrirbæri.“

Hún bætir því við að kórónan hafi verið lækkuð síðan faðir hennar Georg VI bar hana. „Sem betur fer höfðum við faðir minn áþekkt höfuðlag, en þegar þú setur kórónuna á, þá er hún þar. Ég meina, hún situr bara þar.“

Áður óbirt efni

Englandsdrottning er orðin 91 árs, en hún var aðeins 25 ára gömul þegar hún tók við tilinum í kjölfar andláts föður hennar, sem lést úr veikindum fyrir aldur fram. „Ég hef horft á eina krýningu og verið krýnd sjálf einu sinni, sem er nokkuð merkilegt.“

Í myndinni gefur einnig að líta áður óbirt myndefni sem sýnir lífið á bak við tjöldin á krýningardeginum. Þar sjást systkinin Karl prins og Anna prinsessa leika sér undir löngum og íburðarmiklum slóða krýningarklæðanna.

Í spilaranum fyrir ofan ræðir Nína Richter þáttaröðina The Crown í Síðdegisútvarpi Rásar 2 þann 11. janúar.