Eldur

Mynd: RÚV / RÚV

Eldur

31.08.2018 - 19:08

Höfundar

Eldur (1950) eftir Jórunni Viðar.

Verk Jórunnar Viðar, Eldur, var samið sem balletttónlist og frumflutt á Listamannasýningu í hinu nývígða Þjóðleikhúsi í maí 1950. Var það í fyrsta sinn sem ballett var sýndur í húsinu. Sinfóníuhljómsveit Íslands lék undir stjórn Róberts A. Ottóssonar en dansinn samdi Sigríður Ármann og dansaði ásamt Sigríði Ólafsdóttur. Jórunn sagði sjálf um verk sitt: „Tónlistin þarfnast engra skýringa, hún er samin með dansinn í huga. Hugsi maður um eld koma fram ótalmargar myndir: blossandi bál, leiftur, blys, funi, glóð, aska.“ Eldur var ekki fyrsta balletttónsmíð íslensks tónskálds, því að þremur árum áður hafði Jón Leifs lokið við Baldr, tveggja klukkustunda „kóreógrafískt drama“ byggt á norrænni goðafræði. Það verk komst þó ekki á svið fyrr en árið 2000 og því var verk Jórunnar fyrsta íslenska balletttónlistin til að vera flutt.


Sinfóníuhljómsveit Íslands og RÚV tóku í þriðja sinn saman höndum og gáfu landsmönnum kost á að ráða efnisskránni á fyrstu tónleikum hljómsveitarinnar á nýju starfsári. Í þetta sinn gafst almenningi færi á að velja uppáhalds íslensku tónsmíðina sína í tilefni 100 ára fullveldisafmælis. Hljómsveitarstjóri var Daníel Bjarnason.