Athugið þessi frétt er meira en 6 ára gömul.

Eldri borgarar í sárri fátækt

03.09.2015 - 20:37
Þórunn Sveinbjörnsdóttir, formaður Félags eldri borgara í Reykjavík og nágrenni
 Mynd: ruv
Allt að tuttugu símtöl berast daglega á skrifstofu Félags eldri borgara í Reykjavík frá félagsmönnum sem berjast við fátækt. Stjórnmálamenn eiga að hlusta á þetta fólk og fara að taka til, segir Þórunn Sveinbjörnsdóttir, formaður félagsins.

Fólkið hringir til að leita ráða hjá starfsmönnum félagsins og biðja um aðstoð. Þórunn segir að símtölin séu frá fimm og upp í tuttugu og þau eru af alskonar toga. Sumir eru í vandræðum vegna lyfjakostnaðar, aðrir vegna húsaleigu, kostnaðar við heyrnartæki eða önnur hjálpartæki svo nokkuð sé nefnt.

Hún segir að eldri borgarar sem eru í sárri fátækt gætu verið nokkur þúsund en hún sé ekki með nákvæma tölu. 

Fjölmörg dæmi eru um eldri borgara sem ekki ná endum saman. Fréttastofa hafði þrisvar sinnum mælt sér mót við fólk sem vildi lýsa kjörum sínum í viðtali. Í öll skiptin hættu þau við vegna þess að þau treystu sér ekki til að bera vandræði sín á torg. 

Einn eldri borgari leyfði fréttastofu að skoða gögn um sig frá Tryggingastofnun. Samkvæmt þeim þá fær hann 140 þúsund krónur á mánuði frá Tryggingstofnun eftir skatt. Hann er með 50 þúsund krónur á mánuði úr lífeyrissjóði líka eftir skatt. Tryggingastofnun hefur þá skert tryggingabætur hans vegna greiðslunnar úr lífeyrissjóðnum. Samtals er hann því með 190 þúsund krónur á mánuði. Fyrir þá peninga þarf hann að borga húsaleigu, mat, fatnað lyf, síma, rafmagn og hita, rekstur bíls o.s.frv. 

Taka skal fram að hann er ekki talinn búa við sára fátækt.

Þórunn segir að stjórnmálamenn eigi að kynna sér stöðu eldri borgara.

„Þeir eiga að koma og kynna sér þetta mál, þeir eiga að tala við þetta fólk, þeir eiga að hlusta og þeir eiga að byrja að taka til í þessum málaflokki.“

Bergljót Baldursdóttir
Fréttastofa RÚV