Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Eldraunir

Mynd: Ólöf Erla / Dimma

Eldraunir

10.07.2017 - 11:34

Höfundar

DIMMA hefur skipað sér í flokk allra vinsælustu hljómsveita landsins á síðustu árum. Sveitin hefur komið fram á hundruðum tónleika út um allt land og gefið út fjölmargar plötur og mynddiska. Tónleikar Dimmu hafa verið sendir út í sjónvarpi og útvarpi og sveitin hefur verið tilnefnd til fjölda verðlauna. DIMMA var m.a. valin „Flytjandi ársins“ á Hlustendaverðlaununum 2016 og var fyrst til að hljóta Krókinn – sérstaka viðurkenningu RÚV fyrir lifandi flutning á árinu 2014.

Eldraunir er fimmta hljóðversskífa DIMMU en einnig síðasti hluti af þríleik sem tengist lauslega og hófst með útgáfu plötunnar Myrkraverk árið 2012. Þar var yrkisefnið öll þau mannanna verk sem framin eru í myrkrinu og skuggahliðum mannlífsins. 

Á Vélráð, sem kom út 2014, ræddi um þá klæki sem mannfólkið notar til þess að beygja náungann undir sinn vilja og ná yfirhöndinni og völdum í samskiptum sín á milli. 

Eldraunir er svo um erfiðleikana sem við mætum hvert og eitt í lífinu á meðan  við berjumst áfram til að vinna okkur brautargengi í köldum og hörðum heimi.

Tónlistarlega þá kveður við nýjan tón á plötunni en hún er þyngri, harðari og hraðari en fyrri plötur Dimmu. Hljóðheimurinn er einfaldari og  meira lifandi en áður, enda var sveitin búin að eyða miklum tíma í demóupptökur áður en komið var í hljóðverið og menn vissu upp á hár hvað gera átti þegar þangað kom. 
Á Eldraunum má því heyra mjög vel æfða rokkhljómsveit sem tekur upp við bestu aðstæður með helstu fagmenn landsins sér til aðstoðar. 
 

Mynd: Hilmar Kári Hallbjörnsson / Canon Mark 1D-X
Arnar Eggert og Andrea Jóns ræddu plötu Dimmu, Eldraunir, í Popplandi 14. júlí 2017.