Eldra fólk býr eitt en ræður ekki við það

15.03.2018 - 21:36
Fólk sem ræður ekki við að fylla á ísskápinn sinn og ná sér í mat á ekki að búa eitt heldur flytja á hjúkrunarheimili, að sögn formanns Landssambands eldri borgara. Allt of algengt sé að fólk í slíkri stöðu búi eitt og því sé löngu orðið tímabært að fjölga íbúðum á hjúkrunarheimilum.

Þórunn Sveinbjörnsdóttir, formaður Félags eldri borgara, var gestur í Kastljósi í kvöld og ræddi þar um nýja rannsókn sem sýni að margt eldra fólk sé vannært. Hún segir að niðurstöðurnar hafi komið illa við hana og aðra í félaginu. „Þær slógu okkur með mikilli sorg. Við upplifðum sorg,“ sagði hún.

Elstu félagsmennirnir eigi oft ekki gott með að vera í sjálfstæðri búsetu, komist illa í búð í hálku og óljóst sé hverjir eigi að moka fyrir fyrir það. Hún segir að það sé engin spurning um að margt eldra fólk í sjálfstæðri búsetu ætti að vera inni á hjúkrunarheimilum, jafnvel þótt oft sé sagt að það sé gott fyrir fólk að vera sem lengst heima hjá sér.

„Það er fullt af níræðu fólki sem getur séð um sig sjálft en þegar þú ert orðinn veikur og svo lasburða að þú getur ekki annast þig sjálfur til að ná í mat í ísskápinn þá ertu kominn á það hættulegt stig að við þurfum að finna einhverjar aðrar lausnir,“ sagði Þórunn.

Spurð hvort hún teldi líklegt að eldra fólk ætti það til að spara við sig mat vegna bágrar fjárhagsstöðu sagði hún það mjög sennilegtl. Hins vegar ætti fólk líka í vandræðum með að velja mat í búðum. Pakkningar væru allt of stórar – yfirleitt fyrir að minnsta kosti tveggja manna heimili og jafnvel þriggja eða fjögurra – og þess vegna sleppti eldra fólk sem byggi eitt því gjarnan að kaupa vörur á borð við ost.

Leiðrétting: Þórunn var ranglega titluð formaður Félags eldri borgara. Hún er formaður Landssambands eldri borgara.

larao's picture
Lára Ómarsdóttir
stigurh's picture
Stígur Helgason
Fréttastofa RÚV