RÚV okkar allra
Hér upplýsum við um starfsemina, bjóðum upp á samtal og svörum spurningum þínum

Eldhúsbekkur og bekkjarýja

Mynd: EPA / EPA
Það er kallað mállýskuorð þegar fólk hefur mismunandi orð yfir sömu hlutina á ólíkum stöðum á landinu. Til dæmis eru börnin á Vestfjörðum kölluð púkar en í Vestmannaeyjum eru strákar kallaðir peyjar.

Börnin, kettirnir og þrifin

Varla er hægt að tala um mállýskur á íslensku, a.m.k. ekki í þeim skilningi sem lagður er í það hugtak í öðrum málum. Samt sem áður má greina mun á milli landshluta og hann jafnvel meiri en við höldum. Hann kemur fyrst og fremst fram í mismunandi framburði orða, til dæmis munurinn á harðmæli og linmæli sem heyrist þegar Norðlendingar fara að baka jólakökurnar en aðrir landsmenn baga jólakögurnar. Hér er ekki ætlunin að tala um framburðarmun heldur um svokölluð mállýskuorð.

Á Akureyri púnkterar á bílum en það springur á bílum annars staðar og á Húsavík borða börnin mæru en ekki sælgæti eins og önnur börn. En þetta með kók í bauk mun vera flökkusaga og ég hef ekki enn fundið Norðlending sem kannast við orðalagið.

Flest börn á Íslandi kunna að vega salt. En börnin í Hafnarfirði gera það ekki heldur ramba þau. Og börnin fyrir vestan vega ekki heldur salt heldur vippa þau.

Kettirnir hafa mismunandi heiti. Karldýrin kallast högnar og kvendýrin bleyður eða læður fyrir norðan en fress og læður sunnanlands.

Eldhússtörfin

 

Ég þurrka af eldhúsborðinu með borðtuskunni en norðlenskir vinir mínir þurrka af eldhúsbekknum  með bekkjarýjunni, eða jafnvel druslunni. Ég sker grænmetið á eldhúsborðinu en borða við matarborðið - sem ég kalla reyndar líka eldhúsborð, og já, það getur valdið misskilningi. Ef það væri eldhúsbekkur í mínu eldhúsi væri hann til að sitja á. Fyrir norðan er grænmetið skorið á eldhúsbekknum og borðað við eldhúsborðið. Eftir uppvaskið er svo þurrkað með viskastykki, sums staðar, en viskustykki annars staðar.

Sumir taka appelsínur og klementínur sundur í báta, aðrir lauf eða jafnvel geira og enn aðrir í fleður. Svo gera sumir greinarmun á því hvort appelsínan er skorin í sundur með berkinum á eða hvort hún er afhýdd og henni svo skipt upp. Sundurskorin fer hún í báta en annars í geira, lauf eða fleðu. Nú eða floks eins og líka hefur heyrst. 

Ég er alin upp við að skræla epli og kartöflur og henda svo hýðinu. Aðrir skralla epli og kartöflur og henda þá skrallinu. Svo eru enn aðrir sem flysja epli og kartöflur og henda svo flusinu. Ég þori ekki að fullyrða að allir sem tala um flus séu að norðan og austan en ég held að það sé yfirleitt þannig.

Það er líka hægt að rífast út í hið óendanlega um hvort það eigi að tala um að spúla eða smúla gólfið í frystihúsinu. Sögnin spúla er úr dönsku spule. Smúla virðist vera einhver afbökun á framburði - þótt reyndar sé til kenning um að hún sé afbökun á danska orðinu smugle eða smygla. Hvernig smygla varð svo að því að sprauta vatni er óleyst ráðgáta, sé kenningin rétt.

Svo er það pulsan og pylsan, það eru átök sem seint taka enda. Það má eiginlega draga línu, næstum þvert yfir landið, og norðan við hana eru étnar pylsur en sunnanmegin ævinlega pulsur. Það má þó segja að þetta sé mismunandi framburður á einu og sama orðinu fremur en tvö aðskilin orð. 

Af þessu má sjá hvað málið er fjölbreytt og mótað af mikilli hugmyndaauðgi.

17.11.2015 kl.16:30
annathr's picture
Anna Sigríður Þráinsdóttir
málfarsráðunautur
Birt undir: Bloggið, Íslenskt mál, Morgunútvarpið