Athugið þessi frétt er meira en 7 ára gömul.

Eldgosinu í Holuhrauni er lokið

28.02.2015 - 11:46
Mynd með færslu
 Mynd:
Eldgosinu í Holuhrauni er lokið. Þetta er niðurstaða vísindamannaráðs almannavarna sem hittist á fundi í morgun. Ráðið segir þau nauðsynlegt að fylgjast áfram mjög vel með Bárðarbungu auk þess sem áfram verður fylgst með gasmenguninni frá gosstöðvunum og hraunbreiðunni í Holuhrauni.

Páll Einarsson, prófessor í jarðeðlisfræði, útilokar ekki að aftur taki að gjósa á svipuðum slóðum, en segir að nú taki við óvissuástand um það hvað gerist undir Bárðarbungu.

Þegar Gísli Gíslason, þyrluflugmaður hjá Norðurflugi, flaug yfir eldstöðvarnar í gær sáust engin eldsumbrot. Vísindamenn fóru með þyrlu Landhelgisgæslunnar í gærkvöld og flugu yfir eldstöðvarnar. Vísindamannaráð almannavarnanefndar var svo kallað saman til fundar í morgun til að meta nýjustu upplýsingar. Niðurstaða þess var sú að eldgosinu sem hófst 31. ágúst í fyrra væri lokið. Eldgosið stóð því í um það bil hálft ár.

Ekki hefur verið tekin ákvörðun um að breyta aðgangsstýrða svæðinu norðan Vatnajökuls og almannavarnir vinna áfram á hættustigi. Litakóði fyrir flug hefur þó verið lækkaður úr appelsínugulum í gulan. Vísindamannaráð almannavarna kemur næst saman til fundar á þriðjudag.

[email protected]/[email protected]