Athugið þessi frétt er meira en 13 ára gömul.

Eldgosið í jafnvægi

23.03.2010 - 21:00
Mynd með færslu
 Mynd:
Engin breyting hefur orðið á eldsumbrotum í Fimmvörðuhálsi. Vísindamenn eru hinsvegar við því búnir að gos geti varað í nokkurn tíma, jafnvel einhverja mánuði. Almannavarnarnefnd heldur áfram sólarhringsvakt og nú síðdegis fundaði hún með jarðvísindamönnum og kynningarfundur fyrir íbúa er fyrirhugaður á morgun.

Steinunn Jakobsdóttir, jarðeðlisfræðingur, segir gosið frekar stöðugt, það hafi vaxið frá byrjun gossins og fram á síðustu nótt. Í nótt og í dag hafi gosið verið á svipuðu róli. Það stemmi við það sem jarðvísindamenn sáu við eftirlitsflug í dag. Nú álíti vísindamenn að komið sé ákveðið jafnvægi. Hvorki sé neitt sem bendi til þess að gosið sé að hætta, né að eitthvað meira sé í vændum.

Elvar Eyvindsson, sveitarstjóri Rangárþings eystra, ráðleggur fólki á svæðinu að láta hverjum degi nægja sína þjáningu. Ekkert bendi til þess að frekari atburðir vofi yfir. Á meðan haldi fólk ró sinni.

Gosinu svipar mjög til Vestmannaeyjagossins 1973 að mati Haraldar Sigurðssonar, eins reyndasta eldfjallafræðings heimsins. Hann fór ásamt fleiri vísindamönnum í rannsóknarleiðangur í Þórsmörk í dag, þar sem hugað var að mælitækjum sem sett voru upp skömmu áður en gosið hófst. Haraldur segir að í dag hafi verið tekin vatnssýni úr Hrunaá. Vatnið hafi verið 11 gráðu heitt, sem sé furðu heitt – vegna þess að snjór sé að bráðna. Hraunstraumurinn stefni í áttina að Þórsmörk. Hugsanlega renni hraunið alla leið þangað, ef gosið varir nógu lengi. Hann segir ljóst að hraunstraumurinn sé lítill, en erfitt sé að gera sér grein fyrir hversu lengi gosið muni vara. Miðað við hvað hraunin á svæðinu eru lítil búist menn ekki við að gosið vari lengi; einhverjar vikur eða mánuði jafnvel. Ýmislegt geti bent til að gosinu svipi til gossins í Eyjum.