Athugið þessi frétt er meira en 8 ára gömul.

Eldgosið fælir erlenda ferðamenn frá

29.12.2014 - 11:30
Mynd með færslu
 Mynd:
Gosið í Holuhrauni hefur skaðað ferðaþjónustuna á Norðurlandi og erlendum ferðamönnum þar hefur hríðfækkað síðustu mánuði. Framkvæmdastjóri Markaðsstofu Norðurlands segir þörf fyrir markaðsátak í líkingu við það sem ráðist var í þegar gaus í Eyjafjallajökli.

Þegar komið var fram undir miðjan september fór fólk í ferðaþjónustu á austanverðu Norðurlandi að verða þess vart að erlendum ferðamönnum var tekið að fækka miðað við reynslu síðstu ára. Og þrátt fyrir að engar rannsóknir liggi þarna að baki segir Arnheiður Jóhannsdóttir, framkvæmdastjóri Markaðsstofu Norðurlands, þetta mjög greinilegt. „Sumir sögðu, eftir að eldgosið fór almennilega af stað, þá hefið verið svona eins og hefði verið settur tappi í flösku hérna á Akureyri og í Mývatnssveit."

Og  margir í ferðaþjónustunni taka í sama streng. Eldgosið í Holuhrauni hafi fælt erlenda ferðamenn frá. „Hinn almenni ferðamaður varð pínulítið hræddur og hélt að hann væri í hættu hérna á Akureyri," segir Arnheiður. 

Hún segir þetta sömu reynsluna og við gosið í Eyjafjallajökli og við því þurfi að bregðast. Jafnvel með öðru eins markaðsátaki og ráðist var í þá.
„Það má ekki gleyma því að þó þarna sé svæði sem er minna sótt en Suðurlandið, þá eru þarna aðilar sem eiga mjög erfitt í rekstri núna. Þegar eru lokanir inni á hálendinu þá breytast forsendur og ekki hægt að fara ferðir sem þeir eru búnir að selja í. Þeir geta heldur ekkert selt fyrirfram þegar þessi óvissa er uppi."

Hún óttast að fyrirtæki muni leggja upp laupana, sérstaklega þau smærri. „Ég held ég geti alveg staðhæft, að það verða einhverjir sem að hætta og tapið verði bara það mikið að þeir ráði ekki við það."