Athugið þessi frétt er meira en 13 ára gömul.

Eldgosi lokið í bili

13.04.2010 - 14:40
Mynd með færslu
 Mynd:
Grafarþögn er við eldstöðvarnar á Fimmvörðuhálsi. Eldgosinu virðist því vera lokið í bili. Um ellefu leytið í gærmorgun var óveruleg kvikuvirkni í eldstöðvunum en klukkan sex í gærkvöld var henni lokið, segir Magnús Tumi Guðmundsson, jarðfræðingur. Fólk frá Jarðvísindastofnun er á leið að gosstöðvunum.

Björn Oddsson, jarðfræðingur er ásamt þremur öðrum á Morinsheiði með hitamyndavél að taka myndir af hrauninu og fylgjast með kólnun þess. Hann segir að hraunyfirborðið mælist nú 50-100 gráðu heitt. Mikil gufa sjáist neðst í Hrunagili þar sem vatn rennur yfir hraun. Vatnið þar mælist 50 gráðu heitt.

Í Hrunagili eru fjórir jarðfræðingar Jarðfræðistofnunar að taka vatns-og gassýni til að fá upplýsingar um það hvort loftslagið sé eitrað og þá hversu mikið. Á hrauninu í Hrunagili sjást brennisteinsútfellingar - gulir flekkir.  Fólk ætti því ekki að fara inn í gilin eins og sakir standa. Ekkert hraunrennsli er nú frá gosstöðvunum, segir Björn, en það taki tíma fyrir hraunið að kólna.

Öll umferð innan eins kílómetra radíus frá gosstöðvunum er bönnuð.