Athugið þessi frétt er meira en 7 ára gömul.

Eldgos: Óveruleg öskuframleiðsla

29.08.2014 - 07:35
Mynd með færslu
 Mynd:
Talið er að hraun úr eldgosinu, sem hófst norður af Dyngjujökli á miðnætti í nótt, renni til suð - austurs og að það renni hratt. Ríkislögreglustjóri hefur í samráði við lögreglustjórann á Húsavík fært almannavarnarstig af hættustigi yfir á neyðarstig.

Þetta kemur fram í stöðuskýrslu frá Almannavarnarvörnum.  Þar segir enn fremur að sprungugosið, sem er nyrst í Holuhrauni, sjáist ekki á radar og að öskuframleiðsla sé óveruleg. 

Vísindamenn telja að gosið sé nokkra kílómetra norður af sporði Dyngjujökuls, og að hraun renni úr sprungu sem talin er kílómetra löng til suð - austurs og virðist renna hratt.

Engin merki sjást um jökulhlaup. Í stöðuskýrslunni kemur enn fremur fram að litakóði fyrir flug sé rauður og að vísindamenn, sem verið hafa við störf skammt frá gosinu, fylgjast með því í öryggri fjarlægð. Áætlað er að TF - SIF fljúgi yfir klukkan 9:30.