Eldar sem loguðu í sjö mánuði loks slökktir

13.02.2020 - 03:38
epa08204553 A car sits in floodwater in Sydney, Australia, 09 February 2020. Accoring to media reports, a powerful storm brough torrential rain to New South Wales, causing flash floods and prompting authorities to issue sever weather warnings for the area.  EPA-EFE/JOEL CARRETT AUSTRALIA AND NEW ZEALAND OUT
 Mynd: EPA-EFE - AAP
Sameiginlegt átak slökkviliðs og fjölda annarra stofnana í Nýja Suður-Wales í Ástralíu varð til þess að loks tókst að slökkva gróðureld sem hafði logað í Lindfield Park Road síðan 18. júlí í fyrra. Slökkvistarf var mjög erfitt þar sem nærri helmingur 858 hektara gróðureldanna logaði í mó undir yfirborðinu. Því dugðu engin venjuleg slökkvistörf. 

Talsmaður slökkviliðsins, James Morris, segir í samtali við The Sydney Morning Herald að venjulega séu slökkviliðsmenn að kljást við yfirborðselda í trjám og öðrum gróðri. Það sem gerði þessa elda sérstaka var að þeir loguðu í gömlu og uppþornuðu votlendi. Mórinn olli því að þeir gátu logað svo lengi. Ekki dugði minna til en að hafa samráð við vísindamenn víða að úr heiminum um hvernig best væri að ráða niðurlögum eldanna. Niðurstaðan var að best væri að væta aftur upp í votlendinu.

65 megalítrum vatns var dælt úr nærliggjandi vatnsbóli. Það, auk 260 millimetra úrhellis síðustu daga, varð til þess að loks var hægt að lýsa því yfir að eldarnir væru slökktir, um 210 dögum eftir að þeir kviknuðu fyrst. Þó áhrif eldanna í Lindfield Park Road hafi ekki verið sjáanleg á yfirborðinu gætti þeirra verulega með slæmum loftgæðum fyrir íbúa í nágrenninu. 

Enn loga 25 eldar í Nýja Suður-Wales, og eftir á að ná tökum á fjórum. Vonir standa til að þeir slökkni fyrir lok vikunnar, þar sem spáð er áframhaldandi úrhelli í fylkinu.

Róbert Jóhannsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi