Eldar loga á ný í Ástralíu - þrír fórust í flugslysi

23.01.2020 - 05:38
epa08153122 Firefighters work at an electrical substation threatened by a bushfire, near West Queenbeyan, Australia, 23 January 2020.  EPA-EFE/MICK TSIKAS  AUSTRALIA AND NEW ZEALAND OUT
 Mynd: EPA-EFE - AAP
Þrír menn fórust þegar flugvél sem notuð var við slökkvistörf vegna gróðureldanna í Ástralíu fórst í landinu suðaustanverðu í dag. Vélin var af Hercules-gerð, fengin að láni frá Kanada, en þriggja manna áhöfnin var bandarísk. Fjöldi gróðurelda hefur blossað upp í Ástralíu á ný eftir stutt hlé vegna rigninga. Í dag er víða yfir 40 stiga hiti syðra og hvassir, hlýir vindar blása nýju lífi í gamlar glæður.

Minnst sjö eldar sem gosið hafa upp í dag eru svo stórir að lýst hefur verið yfir neyðarástandi þar sem þeir loga, þar á meðal í Snowy Monaro-héraði í Nýja Suður Wales, þar sem flugvélin fórst.

Úrhellið dugði skammt

Úrhellisrigning nokkra síðustu daga slökkti fjölda elda og mjög sljákkaði í öðrum en nú hefur hiti hækkað á ný og úrkoman vikið fyrir hlýjum og þurrum vindum. Shane Fitzsimmons, slökkviliðsstjóri í dreifbýli Nýja Suður Wales, segir sitt lið við öllu búið enda bráð eldhætta í ríkinu undir þessum kringumstæðum.

Hann minnir á að þótt tekist hafi að slökkva marga elda og koma böndum á aðra þá logi eldar enn hér og þar og annars staðar kraumi glóð undir sviðnum sverði. „Við vitum ekki hversu margar rætur, trjástubbar eða greinar munu fuðra upp á ný við þessar aðstæður," segir slökkviliðsstjórinn.

Spáð er nokkru svalara veðri strax á morgun, en gróðureldatímabilið er langt í frá liðið. 32 hafa týnt lífinu í gróðureldunum það sem af er ástralska sumrinu, en fyrstu stóru eldarnir blossuðu upp í september. 

Fréttin var upppfærð klukkan 05.40, þegar staðfest var að flugvélin og áhöfn hennar hefðu farist, og aftur klukkan 06.45, eftir að upplýst var um þjóðerni áhafnarinnar.

Ævar Örn Jósepsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi