Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

El Chapo var „heimsins mesti fíkniefnabarón“

12.02.2019 - 21:30
Mynd með færslu
 Mynd: AP - US Law Enforcement
Mexíkóski fíkniefnabaróninn Joaquin Guzman, betur þekktur sem El Chapo eða „Sá stutti“ var í dag fundinn sekur um öll ákæruatriði eftir þriggja mánaða réttarhöld í New York. Hann var sakfelldur fyrir eiturlyfjasmygl í tonnatali, peningaþvætti og ólöglegan vopnaburð. „Umsvif hans voru meiri en hjá sjálfum Pablo Escbar,“ segir fyrrverandi yfirmaður alþjóðadeildar DEA, fíknefnadeildar bandaríska ríkisins.

Réttarhöldin yfir El Chapo voru söguleg en þetta var í fyrsta skipti sem svona valdamikill glæpaforingi var dreginn fyrir dóm. Öryggisgæslan í kringum dómshúsið var líka fordæmalaus, sprengjuleitarhundar og vopnaðir öryggisverðir voru á hverju strái og þess var gætt að enginn vissi hverjir ættu sæti í kviðdómi af ótta við hefndaraðgerðir. 

Meðal þeirra sem komu fyrir dóminn voru fyrrverandi samstarfsmenn El Chapo og skósveinar hjá hinum alræmdu Sinaloa-glæpasamtökum. Þeir lýstu því hvernig fíkniefnabaróninn náði sínu fram með mútugreiðslum og morðum og beitti ofbeldi af minnsta tilefni, gróf jafnvel fólk lifandi. Verjendur Guzman reyndu að gera lítið úr vitnisburði þeirra og sögðu þá eingöngu vera að bjarga eigin skinni og koma sér í mjúkinn hjá bandarískum yfirvöldum.  

Dómari ákveður refsingu yfir El Chapo þann 25. júní en hann verður líklega dæmdur í  margfalt lífstíðarfangelsi fyrir brot sín.  „Þessi niðurstaða er mikill sigur fyrir Mexíkó, Bandaríkin og önnur lönd sem hafa mátt þola glæpastarfsemi Sinaloa-samtakanna,“ hefur AFP-fréttastofan eftir Mike Vigil, fyrrverandi yfirmanni alþjóðadeildar DEA, fíknefnadeildar ríkisins.  „El Chapo er heimsins mesti fíkniefnabarón. Hann er stærri en sjálfur Pablo Escobar,“ segir Vigil en Escobar var um tíma talinn einn ríkasti maður heims. Bandaríkjamönnum tókst aldrei að hafa hendur í hári hans þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir og  hann var að lokum myrtur í aðgerð yfirvalda árið 1993. 

Í frétt AFP kemur fram El Chapo muni líklega afplána dóm sinn í Florence-fangelsinu í Colarado sem hefur stundum verið kallað „Alcatraz klettanna“ í höfuðið á alræmdu fangelsi á San Francisco-flóanum.  Þar eru geymdir glæpamenn sem eru taldir ógn við þjóðaröryggi, menn eins og Theodore Kaczynski, sem gengur undir nafninu Unabomber, og Terry Nichols sem var sakfelldur fyrir aðild sína að hryðjuverkunum í Oklahoma.  „Þessi staður er hugsaður til að þagga niður í okkur og hafa stjórn á okkur. Þetta er andlegur pyntingarklefi,“ hefur breska blaðið Guardian eftir Shain Duka sem sat um tíma í fangelsinu.