Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

„El Chapo“ treysti á morð og mútur

20.11.2018 - 23:28
Mynd með færslu
 Mynd:
Jesus Zambada, eitt af lykilvitnum ákæruvaldsins í dómsmálinu gegn Joaquin Guzmán, betur þekktum sem „El Chapo“, sagði í vitnisburði sínum í gær að Guzmán hafi treyst á morð og mútur til að halda völdum . Zambada kom fyrir dóminn í þriðja sinn í gær þar sem hann lýsti því meðal annars hvernig Guzmán hefði látið drepa keppinaut sinn þar sem sá neitaði að taka í hönd hans.

Talið er að réttarhöldin yfir Guzmán geti staðið í allt að fjóra mánuði.  Þau fara fram í Brooklyn í New York og hefur öryggisgæsla í kringum dómshúsið verið hert til muna. Kviðdómendur eru nafnlausir til að vernda þá frá hugsanlegum hefndaraðgerðum skósveina Guzmáns og vopnaðir verðir fylgja þeim við hvert fótmál. 

Áhuginn á réttarhöldunum er líka mikill enda ekki á hverjum degi sem yfirmaður alþjóðlegra glæpasamtaka kemur fyrir dóm. Blaðamaður New York Times ráðlagði fólki  til að mynda að mæta klukkan 6:45 þegar réttarhöldin hefjast klukkan 9:30. „Og þið verðið að vera búin að drekka kaffið ykkar því það er bannað að fara með öll drykkjarföng inn í dómshúsið.“ Fyrstu 50 fá aðgang að aðalsalnum og næstu fimmtíu að efri salnum. Þeir sem ekki komast að eru beðnir um að yfirgefa dómshúsið.

Réttarhöldin yfir Guzmán héldu áfram í gær en þá kom Jesus Zambada, eitt af lykilvitnum ákæruvaldsins, fyrir dóminn í þriðja sinn. Fyrri vitnisburðir hans hafa vakið nokkra athygli en strax á fyrsta degi veitti hann hálfgerða kennslustund í því hvernig Sinaloa-glæpasamtökin starfa. Zambada hefur verið kallaður „endurskoðandi“ samtakanna en bróðir hans, Ismael Zambada, er talinn hafa tekið við stjórn þeirra eftir handtöku Guzmáns. Hann er jafnvel sagður hafa svikið Guzmán í hendur yfirvalda. 

Á vef CBS fréttastofunnar kemur fram að í gær hafi kviðdómendur meðal annars fengið að sjá mynd af demantskreyttri skammbyssu með upphafsstöfum Guzmáns.  Guzmán virðist hafa haft mikið dálæti á skrauti og skotvopnum því hann er einnig sagður hafa átt gullsleginn AK-47 rifil. 

Zambada lýsti síðan hrottafengnu ofbeldi samtakanna og hvernig því var beitt af minnsta tilefni. Til að mynda hefði bróðir hans sagt honum sögu af því þegar Guzman hitti keppinaut sinn á fundi fyrir fjórtán árum. Keppinauturinn neitaði að taka í hönd Guzmáns og var myrtur fyrir vikið skömmu síðar.

Þá sagði Zambada að Guzmán hefði fyrirskipaði morð á spilltum yfirmanni lögreglunnar sem hafði slegið um sig með yfirlýsingum um að hann gæti komið Guzmán og félögum fyrir kattarnef.  Zambada greindi einnig frá því þegar einn af uppljóstrurum hans innan lögreglunnar hefði upplýst að yfirvöld teldu geta handsamað Guzmán. 250 þúsund dollara mútugreiðsla til yfirmanns kæmi þó í veg fyrir slíkt. Greiðslan var innt af hendi og ekkert varð af aðgerðum lögreglunnar.

Á vef New York Times segir að William Purpura, einn af verjendum Guzmán, hafi lagt nokkrar spurningar fyrir Zambada.  Hann gaf jafnframt í skyn að Zambada væri lítið annað en lygari sem gæti sagt hvað sem er. Þeir sem gætu staðfest sögur hans eða hrakið væru allir dánir. Í þeim hópi væri meðal annars Amado Carillo Fuentes sem lést árið 1997 þegar honum blæddi út eftir lýtaaðgerð. „Allt þetta fólk er dáið. Þannig að þú ert bara einn eftir, er það rétt?,“ spurði Purpura. „Til allrar hamingju þá er ég á lífi,“ svaraði Zambada.

NBC segir að vörn Guzmáns byggist að mestu leyti á því að menn eins og Zambada séu með vitnisburði sínum um að Guzmán hafi verið leiðtogi samtakanna að koma sér í mjúkinn hjá yfirvöldum í eigin dómsmálum.  Purpura á þannig að hafa fært til mynd af Zambada í skipuriti Sinaloa-samtakanna þannig að hann liti út fyrir að vera yfirmaður Guzmáns. „Hvernig lítur þetta út?“ spurði Zambada. „Vel. Nema ég ég er undirmaður hans,“ svaraði Zambada.