Athugið þessi frétt er meira en 5 ára gömul.

„El Chapo“ fluttur í fangelsi nærri Texas

FILE - In this Jan. 8, 2016 file photo, Mexican drug lord Joaquin "El Chapo" Guzman is escorted by army soldiers  to a waiting helicopter, at a federal hangar in Mexico City, after he was recaptured from breaking out of a maximum security prison
 Mynd: AP
Mexíkóski glæpaforinginn Joaquin Guzman, öðru nafni El Chapo eða Sá stutti, hefur verið færður í fangelsi nærri landamæraborginni Ciudad Juarez, steinsnar frá El Paso í Texas. Fangelsisyfirvöld í Mexíkó fullyrða að flutningurinn sé aðeins liður í öryggisáætlun stofnunarinnar, sem meðal annars mæli fyrir um flutninga hættulegustu fanganna öðru hvoru. Flutningur Guzmans til Ciudad Juarez væri því ekki undanfari að framsali hans til Bandaríkjanna.

Guzman, sem var og er foringi hins illræmda Sinaloa-glæpagengis, er eftirlýstur í Bandaríkjunum fyrir stórfelld og ítrekuð brot á eiturlyfjalöggjöf landsins. Sem höfuðpaur Sinaloa ber hann ábyrgð á umfangsmiklu smygli á eiturlyfjum yfir landamærin. Bandarísk yfirvöld hafa farið formlega fram á framsal hans, og hefur þeirri kröfu ekki verið tekið ólíklega. Guzman var handsamaður í janúar síðastliðnum, sex mánuðum eftir að hann strauk úr mexíkósku öryggisfangelsi.

Samkvæmt upplýsingum fangelsisyfirvalda er Guzman aðeins einn í hópi ríflega 7.400 fanga sem fluttir hafa verið til í samræmi við nýjar öryggisreglur.

Vinna stendur yfir í fangelsinu þar sem hann var áður, sem miðar að því að auka enn öryggi þess. Fréttaskýrendur vestra hafa leitt að því getum, að menn hafi óttast að undirsátar Guzmans nýttu sér umrótið í tengslum við framkvæmdirnar til að leysa foringja sinn úr haldi öðru sinni og því ákveðið að færa hann.

Sjálfur hefur Guzman óskað eftir því að verða framseldur til Bandaríkjanna hið fyrsta, þar sem hann telur sig eiga betri vist í vændum en í tugthúsum Mexíkós. 

 

Ævar Örn Jósepsson
Fréttastofa RÚV