Athugið þessi frétt er meira en 6 ára gömul.

Ekki víst hvernig nafnið verður valið

11.03.2015 - 12:14
Mynd með færslu
 Mynd:
Ekki hefur verið ákveðið hvernig staðið skuli að nafngift á nýja hrauninu sem myndaðist í eldgosinu í Holuhrauni. Það er á forræði hreppsnefndar Skútustaðahrepps, samkvæmt nýjum lögum um örnefni sem samþykkt voru í síðustu viku.

 Stungið hefur verið upp á ýmsum örnefnum fyrir hraunbreiðuna en hingað til hefur nafnið Holuhraun verið notað. Drekahraun og Nornahraun eru á meðal hugmynda sem upp hafa komið. Jón Óskar Pétursson, sveitarstjóri Skútustaðahrepps, segir að nú sé verið að finna út hvaða leið sé best að fara.

„Við erum nú bara að reyna að átta okkur á því hvernig að þessu skuli standa. Nú eru þessi lög nýsamþykkt og þetta hefur ekki verið gert áður með þessum hætti, þannig að við erum að reyna að ná utan um þetta og afla okkur upplýsinga um hvernig að þessu eigi að standa,“ segir Jón Óskar.

Leitað verður álits hjá örnefnanefnd, lögum samkvæmt, en Jón segir að ekki sé unnið með ákveðinn nafnalista.

„Nei, það er ekki komið það langt. Við erum meira að reyna að átta okkur á forminu, frekar en einstaka nöfnum.“

Þá er ekki víst að íbúar fái að senda inn tillögur eða kjósa um nafn. Slíkt kemur þó til greina eins og annað. Stefnt er að því að afgreiða málið sem fyrst.

„Ég held að þetta sé spurning um einhverja daga, frekar en mánuði eða vikur. Við erum að reyna að vinna eins hratt og kostur er í þessu. Ég á von á því að eftir ekki svo mjög langan tíma verði eitthvað að frétta af því hvernig að þessu verður staðið,“ segir Jón Óskar.

Rögnvaldur Már Helgason
Fréttastofa RÚV