Athugið þessi frétt er meira en 6 ára gömul.

Ekki víst að Kínavörur mengi mest

13.01.2017 - 11:10
Kona stendur í rúllustiga
 Mynd: Stocksnap.io
Hvaða vörur eru loftslagsvænar og hvaða vörur eru það ekki? Þessari spurningu er ekki auðsvarað þar sem það er ekki miði við hliðina á verðmiðanum sem tilgreinir hversu mikið af gróðurhúsalofttegundum var losað við framleiðslu vörunnar og flutning. Í hnattvæddum heimi er flókið að greina kolefnisspor varnings. Vörur frá Kína hafa ekki endilega skæðari loftslagsáhrif en vörur frá öðrum löndum.

Íslendingar kaupa vörur alls staðar að úr heiminum. Sumar eru fluttar til landsins með flugi, aðrar sjóleiðina. Sumar eru framleiddar með kolabrennslu, aðrar ekki. Sú losun sem verður við framleiðslu þessa varnings skrifast samkvæmt Alþjóðasamningum ekki á okkar loftslagsreikning heldur á reikning helstu innflutningsríkja okkar. 

Mynd með færslu
Rauðu viðbúnaðarstigi var fyrst lýst yfir í Peking í desember í fyrra. Mynd: EPA
Mengun frá kolaverum skapar mikinn vanda í Kína.

Innflutningur tvöfaldast frá aldamótum

Innflutningur hefur aukist mikið, tæplega tvöfaldast frá aldamótum. Þetta á til dæmis við um ávexti og grænmeti sem flutt er til landsins. Ekki hefur verið tekið saman hvernig þessar vörur eru helst fluttar til landsins, en starfsmaður Tollstjóraembættisins sagði það einkum ráðast af geymslutíma varanna. Þannig koma epli og appelsínur einkum með skipum en jarðarber og annað sem geymist stutt með flugi. Það að flytja vörur með fraktflugi losar um 20x meiri koltvísýring en að flytja þær með fraktskipum Verið er að samræma tollskýrslur hér á landi þeim sem notaðar eru í Evrópusambandinu. Reiknað er með því að á þessu ári verði farið að skrá flutningsmáta sérstaklega.

Mynd með færslu
Ávextir eru ríkir af C-vítamínum. Mynd: RÚV
Innflutningur á ávöxtum tvöfaldaðist á 15 árum.

Flutningurinn ekki aðalmálið

Stefán Gíslason, umhverfisstjórnunarfræðingur, segir að almennt hafi það við hvaða aðstæður vara er framleidd meiri áhrif á kolefnisspor hennar en flutningur. Það skrifist kannski um 10-25% losunar á hann. 

„Almennt held ég að flutningurinn sé ofmetinn í þessu sambandi. Framleiðsla á vöru vegur yfirleitt miklu þyngra en flutningurinn á henni en auðvitað skiptir flutningurinn samt máli.“

Neyslufrekasta þjóð í heimi

Samkvæmt umhverfis- og auðlindaráðuneytinu nemur losun á hvern Íslending 14 tonnum af koltvísýringi árlega. Í Evrópu er meðaltalið níu tonn, á heimsvísu er það sex tonn. Niðurstöður meistararannsóknar Sigurðar Eyberg í Umhverfis og auðlindafræði, sem út kom árið 2010, benda til þess að Íslendingar séu neyslufrekasta þjóð jarðar. Fram kemur að mest muni um  útblástur koldíoxíðs við framleiðslu á rafmagnstækjum, bifreiðum og olíu sem flutt er til landsins. Vísirinn sem Sigurður notaði til að reikna út vistspor íslands og aðlagaði að íslenskum aðferðum þarf þó endurbóta við að hans mati og endurspeglar stöðuna hér ekki fullkomlega. Til að fá raunhæfa tölu fyrir Vistspor Íslands þarf að hans mati frekari rannsóknir. Engu að síður bentu útreikningar hans til þess að vistspor Íslendinga væri stærst í heimi, jafnvel þegar þætti fiskveiða, sem hvað erfiðast var að meta, var sleppt. 

Veðurfræðingur vakti athygli

Mynd með færslu
 Mynd: Skjáskot - RÚV
Einar Sveinbjörnsson.

Ummæli sem Einar Sveinbjörnsson, veðurfræðingur, lét falla í veðurfréttatíma í upphafi árs hafa vöktu mikla athygli. Hann sagði að vildu Íslendingar stemma stigu við loftslagsbreytingum ættu þeir að hætta að kaupa vörur frá Kína. Hann rökstuddi fullyrðingu sína með því að vísa til þess að í Kína fer rafmagnsframleiðsla einkum fram með kolabrennslu. En hversu mikið kaupum við frá Kína? Og eru aðstæður í öðrum viðskiptalöndum okkar eitthvað skárri?

Undirrituðum fríverslunarsamning við Kína fyrst Evrópuþjóða

Vorið 2013 undirritaði Össur Skarphéðisnsson, þá utanríkisráðherra, fríverslunarsamning við kínversk stjórnvöld. Ísland varð þar með fyrsta Evrópuríkið til að gera slíkan samning við Kína. Samningurinn tók gildi í júlí 2014. Síðan hefur Sviss gert tvíhliða samning við Kína og hafnar eru viðræður milli Kína og Noregs.

Innflutningur lítið aukist

Frá því samningurinn tók gildi hefur innflutningur frá Kína ekki aukist mikið þrátt fyrir meint Ali-Express-æði landans. Útflutningur á íslenskum vörum til Kína hefur aftur á móti rúmlega tvöfaldast. Við flytjum einkum sjávarfang og álþynnur þangað, en líka vatn, snyrtivörur og tækjabúnað. 

Mynd með færslu
 Mynd: Wikimedia commons
Raftækjaframleiðsla í Shenzhen

Netverslun er innifalin í þeim tölum sem Spegillinn fékk frá viðskiptaskrifstofu utanríkisráðuneytisins um innflutning á árunum 2014 og 2015. Árið 2013 voru flutt inn 150 þúsund tonn af vörum frá Kína og nam verðmæti innflutningsvaranna 47,8 milljörðum. Hlutfall innflutningsvara frá Kína af heildarinnflutningi til Íslands var 7,8%. Árið 2014 voru flutt inn 126 þúsund tonn af vörum frá Kína fyrir 46 milljarða króna, hlutdeild varnings frá Kína í heildarinnflutningi minnkaði, fór úr 7,8% árið 2013 í 7,4%. Árið 2015 jókst verðmæti innflutningsvara frá Kína talsvert, í 55 milljarða. Hlutdeild innflutnings frá Kína jókst í 7,8% en umfang varningsins minnkaði, hann vó rúmlega 121 þúsund tonn. Ef fyrstu tíu mánuðir síðasta árs eru bornir saman við fyrstu tíu mánuði ársins 2015 sést að dregið hefur lítillega úr verðmæti innflutnings frá Kína. Vörur frá Kína voru 7,3% heildarinnflutnings á þessi tímabili. Ekki er þó alveg að marka þessar tölur þar sem tölur yfir smáverslun á netinu, þar sem upphæðir eru undir 40 þúsund krónum, hafa ekki verið færðar inn. 

Ísland gerir ekki sömu kröfur til Kína og til EFTA-ríkja

Fríverslunarsamtök Evrópu, EFTA, hafa undanfarið lagt aukna áherslu á sjálfbæra þróun í samningum. Í EFTA-samningnum er nú sérstakur kafli með ákvæðum um viðskipti og sjálfbæra þróun í fríverslunarsamningum sem gerðir eru á vettvangi EFTA. Þar er áréttað að ríkin séu skuldbundin til þess að stuðla að því í viðskiptum sínum að markmiðið um sjálfbæra þróun náist. Vísað er til alþjóðlegra yfirlýsinga um umhverfismál, sem samþykktar hafa verið á vettvangi OECD og Sameinuðu þjóðanna, sem og yfirlýsinga Alþjóðavinnumálastofnunarinnar. Þessi ákvæði er að finna í nýlegum fríverslunarsamningum EFTA-ríkjanna við Kosta Ríka, Panama og Gvatemala og samningum við Filippseyjar og Georgíu sem undirritaðir voru á síðasta ári og bíða fullgildingar. Í samningnum sem Ísland gerði við Kína, upp á sitt einsdæmi, er ekki gengið jafn langt og í EFTA-samningunum. Þar er ekki að finna neinar skuldbindingar sem varða umhverfisvernd eða sjálfbærni. Þó er þar einskonar yfirlýsingu um að ríkin séu meðvituð um að efnahagsleg þróun, félagsleg þróun og umhvefisvernd séu sjálfstæðir þættir sem styðji hver annan með gagnkvæmum hætti í þágu sjálfbærrar þróunar og að sterkari viðskiptatengsl geti átt mikilvægan þátt í því að styðja við sjálfbæra þróun.

Innflutningsland = upprunaland 

Starfsmaður Tollstjóraembættisins tjáði Speglinum að gert sé ráð fyrir að innflutningsland vöru sé líka upprunaland hennar. Það á því ekki að skipta máli hvort varan hafi komið einhvers staðar við á leiðinni til Íslands. Kerfið sé þó ekki óbrigðult og því geti verið skráningarvillur í aðflutningsskýrslum. 

Hvernig er orkubúskapur helstu innflutningslanda okkar?

Mynd með færslu
 Mynd: Wikimedia commons
Kínverskt kolaver.

Spegillinn kannaði orkubúskap þeirra ríkja sem Ísland flytur inn neytendavarning frá í því ljósi að kanna hvort Kína kæmi verst út. Athuganir Alþjóðabankans sýna að hlutdeild kola í raforkuframleiðslu hefur aukist á heimsvísu, síðastliðna áratugi. Hún var 30% árið 1975 en 41% árið 2013. Alþjóðabankinn birtir reglulega upplýsingar um hvernig ríki heims haga raforkuframleiðslu sinni. Nýjustu upplýsingar eru ýmist frá 2013 eða 2014, það er því ekki hægt að útiloka að stórfelldar breytingar hafi orðið einhvers staðar. Byrjum á húsgögnum. 

Vinnuaðstaða heimavinnandi starfskrafts.
 Mynd: Pixabay

Árið 2015 fluttu Íslendingar inn tæplega 14 þúsund tonn af húsgögnum. Mest kom frá Kína, næstmest frá Póllandi. Í Kína er 74% rafmagns framleitt með jarðefnaeldsneyti, þar af 72% með kolum. Í Póllandi er hlutfallið 85% og hlutur kola 81%. Ef valið stæði á milli sófa frá Póllandi eða sambærilegs sófa frá Kína, væri sá kínverski hugsanlegra loftslagsvænni, þrátt fyrir að Kína sé það land sem mest losar af gróðurhúsalofttegundum á heimsvísu. 

Stærstur hluti fatnaðar kemur frá Kína

Og fötin okkar. Árið 2015 fluttum við inn 3340 tonn af fatnaði. Þar af kom tæpur helmingur frá Kína, næst mest kom frá Bangladess, 190 tonn og 161 tonn frá Tyrklandi. Eins og fyrr segir eru þrír fjórðu hlutar raforku í Kína framleiddir með hjálp jarðefnaeldsneytis, einkum kola. Í Bangladess er hlutdeild jarðefnaeldsneytis 99%, þar er gas langstærsti orkugjafinn, 91% raforku er framleidd með gasi. Við kolabruna losnar um tvöfalt meiri koltvísýringur en við gasbruna. Frá loftslagssjónarhóli eru föt frá Bangladess því hugsanlega skárri kostur en föt frá Kína. Tyrkland kann svo að vera enn loftslagsvænna framleiðsluland. Þar eru 77% rafmagns framleidd með jarðefnaeldsneyti, einkum gasi og 22% með endurnýjanlegum orkugjöfum, vatns og vindorku. 

Raftækin frá Noregi og Hollandi?

Loks má nefna raftæki. Samkvæmt innflutningstölum Hagstofunnar kemur stærstur hluti þeirra frá Noregi og næststærstur frá Hollandi. Kína er í þriðja sæti. Ástæðan fyrir þessu er sú að í þessum löndum er framleitt mikið af rafskautum, svo sem fyrir bræðsluofna í álverum. 

Mynd með færslu
 Mynd: Anton Brink RÚV - RÚV Anton Brink

Til að fá upplýsingar um neytendavörur þarf að skoða raftækjainnflutning eftir tollskrárnúmerum. Skoðum til dæmis uppþvottavélar. Árið 2015 var flutt inn 191 tonn af uppþvottavélum frá Póllandi, 85 tonn frá Þýskalandi og 82 tonn frá Ítalíu. Þær ítölsku eru sennilega loftslagsvænastar, hlutur jarðefnaeldsneytis er svipað mikill í Þýskalandi og á Ítalíu, í kringum 60%, en Þjóðverjar reiða sig einkum á kol á meðan Ítalir nota einkum gas.

Tyrkneskir kæliskápar

Stærstur hluti kæli- og frystiskápa sem fluttur var til landsins í fyrra kemur frá Tyrklandi og Ungverjaland kemur fast á hæla þess. Hér er útlit fyrir að ísskápar frá Ungverjalandi væru loftslagsvænni. Hlutfall jarðefnaeldsneytis í raforkuframleiðslu hjá Ungverjum er 36% en 77% hjá Tyrkjum. 

Mynd með færslu
 Mynd: Wikimedia commons
Jarðvarminn hjálpar Ungverjum.

Mikil einföldun

Með þessum dæmum er veruleikinn einfaldaður talsvert. Gengið er út frá heildarorkubúskap hvers ríkis. Ekki liggur fyrir hvernig hver vara eða íhlutir í hana eru framleiddir og ekki er tekið tillit til losunar sem verður við flutning. Þá er ekki tekið tillit til þess hvort ríki hafa verið að auka hlutdeild endurnýjanlegra orkugjafa eða hyggjast gera það, líkt og Kína. Ekki er horft til þess hvernig umhverfismálum er háttað almennt eða hvernig aðstæður verkafólks eru. 

Kolefnissporið sjaldnast þekkt

Kolefnisspor vara sem seldar eru í verslunum hér á landi er sjaldnast þekkt þar sem ekki hafa verið unnar nákvæmar lífsferilsgreiningar á þeim. Þetta gerir þeim neytendum sem vilja breyta hegðun sinni erfitt um vik. Spegillinn sendi í gær fyrirspurn á nokkra fjölmenna Facebook-hópa og spurði meðal annars hvort meðlimir veltu fyrir sér kolefnisspori þess varnings sem þeir kaupa eða hefðu breytt lífstíl sínum til að minnka losun. Tugir svara bárust. 

Hvað skilar mestum ávinningi?

Þeir sem vildu láta til sín taka sögðust sumir eiga erfitt með að gera sér grein fyrir því hvers konar aðgerðir skiluðu mestum ávinningi. Til dæmis sagðist bóndi gjarnan vilja sjá það svart á hvítu hvort kolefnissporið af því að neyta veganfæðis í heilt ár væri minna en kolefnissporið af því að neyta kjötmetis, mjólkur og grænmetis frá lífrænu búi. Sumir sögðu gott ef upplýsingar um kolefnisspor vöru væri gefnar upp á umbúðum eða ef til væri app sem hjálpaði neytendum að átta sig á því hvaða vörur væru loftslagsvænar og hvaða vörur væru það ekki.

Fyrirgefðu, hvað losar þetta?

Mynd: RÚV / RÚV
Verður framtíðin svona?

Stefán Gíslason segir að gerðar hafi verið ýmsar tilraunir með kolefnissporsmerkingar, til dæmis í landbúnaði. Þá séu til reiknivélar á netinu, en þær gefi þó bara upplýsingar um meðaltöl fyrir ákveðnar vörur og taki ekki tillit til sérstakra aðstæðna, svo sem hvort nautagripir eru aldir á korni eða ekki. 

„Fræðilega séð er það hægt en það er mjög erfitt í framkvæmd. Flestar vörur sem við kaupum eru af mjög fjölbreyttum uppruna. Ef við tökum bara gallabuxur sem dæmi þá eru þær ekki bara framleiddar á einum stað heldur mörgum og það eru notuð í þær furðumörg efni; bómullin, tvinninn, tölurnar, rennilásinn og svo framvegis. Það þyrfti að elta upphaf hverrar vöru eða hvers íhlutar alveg eins langt og saga hans nær, alveg frá því landið er brotið, eða rutt, þar sem bómullin er ræktuð. Það verður að taka þá losun inn sem verður  við að búa til þetta landbúnaðarland, við að ryðja skóga þess vegna. Það þarf að taka inn vatnsnotkun og það sem henni tengist, áburðarnotkun, notkun varnarefna og svo efna í framleiðslunni. Allt hefur þetta einhver loftslagsáhrif.“

Hann segir að það væri hægt að skylda framleiðendur til að birta þessar upplýsingar en að það myndi þá kalla á mjög flókið eftirlit. Þá geri slíkt kerfi miklar kröfur til neytenda, þeir þyrftu að þekkja æskileg losunarviðmið fyrir tómata, gallabuxur, örbylgjuofna og svo framvegis.

Mælir með umhverfismerktu

Stefán mælir með því að fólk kaupi umhverfismerktar vörur, til dæmis Svansvottaðar. Það spari því ómakið. Þá hafi farið fram einhvers konar skoðun á lífsferli vörunnar og merkið segi neytandanum að varan sé elítuvara, í hópi þeirra umhverfisvænustu á markaði. 

„Eins og staðan er í dag þá er það einfaldasta leiðin til þess að byrja. Fyrir utan það að kaupa bara aðeins minna af öllu, við kaupum kannski yfirleitt aðeins of mikið af flestu sem við kaupum.“ 

Enn eru ekki til svansmerktar matvörur. Stefán segir þó að úrvalið komi mörgum á óvart. Til dæmis sé hægt að kaupa svansmerktar sláttuvélar og þjónustu af svansvottuðum gistiheimilum. 

arnhildurh's picture
Arnhildur Hálfdánardóttir
Fréttastofa RÚV