Athugið þessi frétt er meira en 6 ára gömul.

Ekki vindmyllur í Þorlákshöfn

02.03.2016 - 16:43
Mynd með færslu
 Mynd: EFLA - RÚV
Sveitarfélagið Ölfus vill ekki að setja upp vindmyllugarð í landi Þorlákshafnar. Fyrirtækið Arctic Hydro óskaði eftir samningi við sveitarfélagið í febrúar um rannsóknar- og nýtingarleyfi fyrir vindorkugarð um 4 kílómetrum vestan við Þorlákshöfn. Þar vildi fyrirtækið setja upp 20 vindmyllur. Bæjarstjórn Ölfuss hafnaði þessu samhljóða á fundi sínum fyrir helgi.

Í bókun bæjarstjórnarinnar segir að farið hafi verið yfir óskir Arctic Hydro með hliðsjón af framtíðaráformum sem kynnt hafi verið. Bæjarstjórn sé ekki tilbúin til að ganga til samninga af tveimur ástæðum. Í fyrsta lagi sé svæðið sem óskað hafi verið eftir þegar skipulagt fyrir annan iðnað. Í öðru lagi sé ferðaþjónusta vaxandi atvinnugrein í Sveitarfélaginu Ölfusi og skapist sá vöxtur „fyrst og fremst af ósnortinni náttúru svæðisins og ómetanlegu útsýni til sjávar og fjalla“. Erindinu sé því hafnað. Á myndinni má sjá tölvuteiknaða hugmynd að útliti vindorkugarðs við Þorlákshöfn.

 

Samúel Örn Erlingsson
Fréttastofa RÚV