Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Ekki verjandi fyrir ríkið að bjarga WOW

01.04.2019 - 19:08
Sérfræðingahópur á vegum ríkisstjórnarinnar mælti eindregið gegn þeirri hugmynd að stjórnvöld kæmu með einhverjum hætti inn í rekstur WOW Air til að bjarga fyrirtækinu frá gjaldþroti. Sveitarstjórnarmenn á Suðurnesjum óttast vaxandi atvinnuleysi og búa sig undir það versta.

Sex til sjö hundruð manns missa vinnuna á Suðurnesjum út af gjaldþroti WOW og ef að verstu spár ganga eftir mun atvinnuleysi á svæðinu tvöfaldast. Sveitarstjórnarmenn á svæðinu funduðu með forystumönnum ríkisstjórnarinnar í dag þar sem þeir lýstu yfir þungum áhyggjum af stöðu mála.

„Við erum að búa okkur undir það versta en vonum það besta. Við vitum ekki hversu alvarlega staðan verður. Við vitum hversu alvarlega hún er. Það er búið að segja upp fólki bæði hjá WOW og hjá flugafgreiðslufyrirtækjum. Það er margt í pípunum sem gæti snúið þessari þróun að einhverju leyti við og á meðan við höfum ekki alveg endanlega stöðu þá erum við bara að búast við því versta en verðum svo að sjá til hvernig þetta endar allt saman eftir einhverja daga eða einhverjar vikur,“ segir Kjartan Már Kjartansson bæjarstjóri Reykjanesbæjar.

Vinna er þegar hafin innan þriggja ráðuneyta, mennta-, heilbrigðis- og félagsmálaráðuneytis, við að aðstoða fólk sem missir vinnuna.

„Síðan fórum við í öðru lagi yfir þær opinberu fjárfestingar sem eru fyrirhugaðar á svæðinu og það kom fram í máli sveitarstjórnarmanna að þau leggja mikla áherslu á það að viðhalda þeim áætlunum sem þar eru þegar fyrir hendi um uppbyggingu og við gátum staðfest að það er ekkert annað í pípunum en að halda þeim áætlunum og það mun auðvitað skipta verulegu máli,“ segir Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra.

Hún segir að það hafi aldrei komið til greina að ríkið kæmi með einhverjum hætti inn í rekstur WOW til að bjarga fyrirtækinu frá gjaldþroti.

„Við vorum búin að fara mjög vandlega yfir það hvað það hefði þýtt. Eins og fram hafði komið þá töldum við það ekki verjandi að nýta opinbert fé í að stíga inn í rekstur þessa félags. Við vorum búin að fara yfir hvað það hefði getað þýtt og fara yfir fordæmi annars staðar frá. Margir hafa nefnt þýska flugfélagið Air Berlin. Ef stigið hefði verið inn í með sambærilegum hætti hefði það þýtt að ríkið hefði verið orðið ábyrgðaraðili á öllum skuldbindingum Wow Air. Verið komið í flugrekstur og þurft í raun og veru að vinna að því að minnka umsvif félagsins um leið og hlutverk ríkisins hefði verið að reyna að tryggja tekjustreymi inn. Þannig að allir okkar ráðgjafar mæltu eindregið gegn slíkri ráðstöfun,“ segir Katrín. 

 

Höskuldur Kári Schram
Fréttastofa RÚV