Athugið þessi frétt er meira en 5 ára gömul.

Ekki verður af sameiningu á suðausturhorninu

Mynd með færslu
 Mynd: www.djupivogur.is - RÚV
Samstarfsnefnd vegna sameiningar Skaftárhrepps, Hornafjarðar og Djúpavogshrepps hefur lokið störfum, án niðurstöðu. Sveitarfélögin verða ekki sameinuð í bráð. Óvissa sem fylgdi stjórnarslitum og alþingiskosningum olli því að ekki var unnt að ljúka viðræðum fyrir komandi sveitarstjórnarkosningar.

Árið 2016 hófust viðræður um sameiningu sveitarfélaganna þriggja. Þetta hefði orðið langvíðfemasta sveitarfélag landsins, eða tæplega 14.400 kílómetrar og hefði náð allt frá Mýrdalssandi í vestri og austur fyrir Berufjörð. Íbúar sameinaðs sveitarfélags hefðu orðið um 3.100. 

Þurftu stuðning stjórnvalda

Á fundi í vikunni var ákveðið að samstarfsnefndin lyki störfum. Í fréttatilkynningu frá sveitarfélögunum segir að viðræðurnar hafi verið lærdómsríkar og aukið skilning milli sveitarfélaganna. Hins vegar hafi umrót í landsmálum á tímabilinu, ríkisstjórnarslit og kosningar í kjölfarið, valdið óvissu og orðið til þess að ekki var unnt að ljúka viðræðum fyrir komandi sveitarstjórnarkosningar. „Á það sérstaklega við um ýmis áhersluverkefni sem sveitarfélögin vildu koma á laggirnar með stuðningi stjórnvalda og nýtt fyrirkomulag um stjórnskipulag sameinaðs sveitarfélags," segir í tilkynningunni. 

Ljúka störfum án þess að skila áliti

Af þessum sökum varð það samhljóða ákvörðun nefndarinnar að ljúka störfum án þess að skila formlegu áliti um mögulega sameiningu sveitarfélaganna.

Gauti Jóhannesson, sveitarstjóri Djúpavogshrepps, segir í samtali við fréttastofu að óvíst sé hvort þráðurinn verði tekinn upp að nýju eftir kosningar. Það verði nýrra sveitarstjórna að taka ákvörðun um það.