Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Ekki verði notast við tanngreiningar

09.11.2018 - 11:30
Mynd með færslu
 Mynd: Þór Ægisson - RÚV
Þingmenn Samfylkingarinnar telja að hætta eigi að notast við tanngreiningar til að skera úr um aldur fylgdarlausra barna ef vafi leikur á um hvort viðkomandi sé eldri eða yngri en átján ára. Tekið verði upp heildstætt mat í staðinn. Logi Einarsson, formaður Samfylkingarinnar, hefur sent fyrirspurnir varðandi þetta mál á þrjá ráðherra.

Fyrirspurn var send á dómsmálaráðherra þar sem honum er heimilt að setja reglugerð um framkvæmd tanngreininga á Íslandi og fer fyrir málaflokknum. Spyr Logi þar meðal annars hvort dómsmálaráðherra telji líkamlegar aldursgreiningar siðferðislega réttlætanlegar eða nauðsynlegar í núverandi mynd og í samræmi við barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna. Einnig vill hann fá að vita hversu mörgum umsækjendum um alþjóðlega vernd hefur verið hafnað á grundvelli tanngreininga hér á landi.

Fyrirspurn var einnig send á mennta- og menningarmálaráðherra um það hvort ráðherra fyndist það ásættanlegt að opinber menntastofnun, tannlæknadeild Háskóla Íslands, framkvæmi umdeildar aldursgreiningar á viðkvæmum hópi umsækjenda um alþjóðlega vernd fyrir Útlendingastofnun sem nýti síðar niðurstöður greiningarinnar við úrskurði um alþjóðlega vernd eða dvalarleyfi

Þriðju fyrirspurninni var beint til heilbrigðisráðherra og spurt hvort ráðherra teldi að framkvæmd aldursgreininga á umsækjendum um alþjóðlega vernd, þá sérstaklega tanngreininga, samræmist siðareglum lækna.

Notast er við aldursgreiningar á tönnum hér á landi til að skera úr um aldur fylgdarlausra barna ef vafi leikur á um hvort viðkomandi sé eldri eða yngri en átján ára. Framkvæmdin hefur þótt umdeild en UNICEF, Evrópuráðið, Landssamtök íslenskra stúdenta og Rauði krossinn hafa gagnrýnt slíkar greiningar. Þær feli í sér inngrip, séu úreltar og niðurstöður óáreiðanlegar og ónákvæmar. Dæmi séu um að börn hafi verið ranglega greind sem fullorðnir einstaklingar í umsóknarferli sínu um alþjóðlega vernd hér á landi. Umsækjendur getaekki kært niðurstöðu slíkrar greiningar. Þingmenn Samfylkingarinnar taka undir þessi sjónarmið.