„Ekki vera á ferð að óþörfu“

02.11.2012 - 11:55
Mynd með færslu
 Mynd:
Lögregla höfuðborgarsvæðisins beinir því til íbúa að vera ekki á ferðinni að óþörfu. Gangandi vegfarendur hafa tekist á loft og slasast í óveðrinu.

Fjölmargir hafa leitað á slysadeild Landspítalans í Fossvogi frá því klukkan átta í morgun.   Á fjórum tímum hafa sautján  leitað þangað vegna áverka sem þeir hlutu eftir að hafa beinlínis tekist á loft og fokið, að sögn læknis á vakt.  Tveir slösuðust þegar þeir urðu fyrir lausum hlutum.  Að minnsta kosti fjórir þeirra eru beinbrotnir og fjórir voru fluttir á slysadeild með sjúkrabíl. Þar á meðal var bílstjóri vöruflutningabifreiðar sem valt í  Kollafirði austan við Malarnám í morgun.   Hann hlaut minniháttar áverka.   Mörg dæmi eru um að fólk hafi hlotið skurði.

„Veðrið er verst hérna á höfuðborgarsvæðinu. Í morgun voru flest útköll í efri byggðum, Mosfellsbæ og Grafarholti. Síðustu stundina hefur þetta færst töluvert niður í bæinn og mikið um að vera í miðbænum, töluvert út um allan bæ en mikið í miðbænum,“ segir Ólöf Baldursdóttir hjá Landsbjörgu.

Slökkvilið höfuðborgarsvæðisins biður foreldra og forráðamenn um að tryggja að börn sín verði sótt í skólana, þannig að þau séu ekki ein á ferðinni í óveðrinu.  Jafnframt hafa skólar verið beðnir um að tryggja að börn yfirgefi ekki skólana nema í fylgd fullorðna.  Þetta er í gildi á höfuðborgarsvæðinu en foreldrar annarsstaðar á landinu ættu líka að taka þetta til sín og tryggja að börnin sín fái fylgd heim eftir skóla.

Aftakaveður er víða á landinu og verkefni vegna veðurofsans fjölmörg. Alls eru um 150 - 170 björgunarsveitarmenn að störfum á höfuðborgarsvæðinu. Margar aðstoðarbeiðnir hafa borist Slysavarnafélaginu Landsbjörgu.  Þá eru margir vegir erfiðir yfirferðar og jafnvel lokaðir á landinu vegna veðursins og því ekkert ferðaveður. Sjá nánar á vef Vegagerðarinnar 

Enn og aftur varar Veðurstofan við norðan vonskuveðri á öllu landinu næsta sólarhring. Búast má við norðanstormi með vindhraða á bilinu 20-28 m/s um allt land og mjög hvassar vindhviður, allt að 55 m/s, við fjöll, einkum á S-verðu landinu frá Snæfellsnesi til Austfjarða. Spáð er talsverðri ofankomu á N- og A-landi í dag.

Vindur fer að ganga niður á öllu landinu um hádegi á morgun (laugardag). Áfram verður þó víða hvasst fram á kvöld, en búist er við að lægi verulega um land allt aðfaranótt sunnudags.

Á höfuðborgarsvæðinu og nágrenni er búist við stormi í allan dag, en dregur lítið eitt úr vindi um hádegi á morgun (laugardag). Lægir síðan aðfaranótt sunnudags.

Fólk er því beðið um að fylgjast vel með veðurspám.

Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi