Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Ekki útilokað að lax hafi sloppið út

22.01.2019 - 17:30
Mynd með færslu
Mynd úr safni. Mynd:
Guðni Magnús Eiríksson, sviðsstjóri á lax- og silungsveiðisviði Fiskistofu, segir ekki hægt að útiloka að fiskur hafi sloppið út í gegnum gat sem fannst á sjókví Arnarlax þrátt fyrir að opið hafi verið lítið. Ekki er vitað hve lengi sjókvíin kann að hafa staðið opin. 

Gat fannst á nótarpoka einnar sjókvíar Arnarlax við Hringsdal í Arnarfirði fyrr í dag en gatið uppgötvaðist við skoðun kafara. Viðgerð á gatinu er lokið, að því fram kemur á vef Matvælastofnunar. Guðni segir að Fiskistofu hafi borist tilkynning um gatið um hádegisbil. Arnarlax hafi þá þegar virkjað viðbragðsáætlun. „Það sem felst í því er að net eru lögð í kringum þá kví sem gat fannst á. Það sem við höfum gert í þessu að við sendum strax eftirlitsmenn á vettvang sem staðfesta það að viðbragðsáætlun hafi verið virkjuð og kanna aðstæður að öðru leyti.“

Guðni hefur ekkert heyrt í eftirlitsmönnum Fiskistofu en nýrra frétta af mögulegri slysasleppingu er ekki að vænta fyrr en seint í kvöld eða í fyrramálið þegar netin verða dregin úr sjó.

 „Samkvæmt lýsingu Arnarlax þá er þetta gat ekki mjög stórt en þó þannig að ekki er útilokað að fiskur hafi farið þar út.  Að sinni er ekkert sem bendir til þess að þetta sé stór atburður en það er hins vegar ekki ljóst. “

-En teljið þið líklegt að fiskur hafi sloppið út? 

„Það er ekki gott fyrir mig að segja til um það á þessari stundu. Það er allt kapp lagt á að viðbragðsáætlun verði virkjuð. Ég á eftir að fá annars nánari upplýsingar um þetta atvik, hvað gæti hafa valdið þessu og hvað lengi það kann að hafa staðið opið eða hvort þetta er skammur eða langur tími eða þess háttar, þannig að það er ekki gott að segja, “ segir Guðni. 

solveigk's picture
Sólveig Klara Ragnarsdóttir
Fréttastofa RÚV