Athugið þessi frétt er meira en 7 ára gömul.

Ekki tímabært að heimila líknardráp

14.01.2016 - 18:29
Mynd með færslu
 Mynd: Skjáskot - RUV
Mjög flókið yrði að innleiða svokallað líknardráp í heilbrigðisþjónustuna því það hefur áhrif á svo margt annað, segir siðfræðingur. Heilbrigðisráðherra segir málið aldrei hafa verið rætt í ráðuneytinu.

Samkvæmt nýrri könnun eru nærri þrír af hverjum fjórum Íslendingum hlynntir líknandi dauða, það er að einstaklingur, sem haldinn er ólæknandi sjúkdómi, fái aðstoð við að binda enda á líf sitt. Framkvæmdastjóri Siðmenntar sagðist í fréttum í gær telja að svo afgerandi niðurstaða hlyti að hvetja menn til að skoða þessi mál betur. 

Vill umræðu fagmanna, ekki stjórnmálamanna

Líknardráp eða líknandi dauði hefur hvorki komið inn á borð Kristjáns Þórs Júlíussonar, heilbrigðisráðherra, né um það verið rætt í ráðuneytinu: „Þetta er að sjálfsögðu mjög mikilvæg spurning sem er full ástæða til að taka umræðu um. Sú umræða á að mínu mati ekki að hefjast á forsendum stjórnmálamanna heldur fagaðila, heilbrigðisstarfsfólks og siðfræðinga. Ég held að það sé rétt að byrja umræðuna þar og vanda til hennar því þetta er mikilvæg umræða og við eigum að gefa okkur góðan tíma til hennar.“ 

Mörg álitamál og flókið viðfangsefni

Salvör Nordal, forstöðumaður Siðfræðistofnunar Háskóla Íslands, segir niðurstöður könnunarinnar ekki koma á óvart. Víðtæk umræða þurfi að fara fram í samfélaginu og meðal heilbrigðisstarfsfólks. Auk þess tengist mjög mörg siðferðisleg álitamál líknardrápi og flókið sé að innleiða það í heilbrigðisþjónustuna: „Þetta er ekki bara spurning um einn einstakling sem vill deyja og er þjáður og er jafnvel deyjandi heldur er þetta spurning um hans umhverfi, þetta er spurning um heilbrigðisþjónustuna sjálfa, hvort þetta hefur áhrif á það hvernig við komum fram við fólk sem er með illvíga sjúkdóma. Þannig að þetta getur haft áhrif á mjög margt, og svo er síðast en ekki síst að það þarf annan til, það þarf heilbrigðisstarfsmann, lækni til þess að framkvæma þetta og læknar hafa almennt verið mjög mótfallnir því að líta á þetta sem sína skyldu.“