Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Ekki tilkynna um ferðalög á samfélagsmiðlum

19.12.2018 - 08:27
Mynd með færslu
 Mynd: Shutterstock
Innbrotum á höfuðborgarsvæðinu fjölgaði í nóvember, að því er fram kemur í nýlegri skýrslu lögreglunnar. Fólk hefur verið hvatt til að vera sérstaklega á verði yfir hátíðirnar. Hjörtur Freyr Vigfússon, markaðsstjóri Securitas, segir að innbrot séu oft algengari í skammdeginu en á öðrum árstíma þegar bjartara er. Hann hvetur fólk til að vera ekki endilega að tilkynna um ferðalög á samfélagsmiðlum.

Fyrr á árinu var innbrotafaraldur hér á landi, þar sem skipulagðir glæpahópar voru að verki. Hjörtur segir þær aðstæður nýjar hér á landi. „Innbrot á Íslandi hafa í sögunni frekar verið tilviljanakennd og skjótur gróði til að fjármagna neyslu eða slíkt. Þetta voru svolítið nýjar áskoranir á þessu ári. Þá skiptir máli að standa saman. Það er þetta gamla góða; nágrannagæslan, tilkynna um ferðir sem okkur finnst skrítnar, taka niður bílnúmer og allt þetta hjálpar,“ sagði Hjörtur í Morgunútvarpinu á Rás 2 í morgun. Hann kveðst vita um tvö innbrotsmál sem leystust því að bílnúmer innbrotsþjófanna sáust á eftirlitsmyndavélum. 

Hjörtur hvetur fólk til að vera alltaf á varðbergi og læsa hýbýlum sínum, bílum og geymslum. Nú þegar fjöldi fólks sé að fara til útlanda um hátíðirnar þurfi fólk að hafa í huga að tilkynna ekki um ferðirnar á samfélagsmiðlum. „Ekki endilega vera að tilkynna á samfélagsmiðlum. Það er margsannað að menn fylgjast með mannferðum og ljósum. Þessi skipulögðu brot byrja þar.“

Í nóvember voru vatnstjón, reykur og eldur algengari hjá viðskiptavinum Securitas en innbrot. „Það er mjög vanmetinn hlutur og því mikilvægt að minna fólk enn og aftur á að fara varlega. Það er fallegt að fara hafa kerti en það þarf að skoða í kringum þau og tryggja að einhver beri ábyrgð á að slökkva á þeim.“

dagnyhe's picture
Dagný Hulda Erlendsdóttir