Athugið þessi frétt er meira en 7 ára gömul.

Ekki tilefni til að fara á taugum

12.06.2014 - 13:29
Mynd með færslu
 Mynd:
Formaður utanríkismálanefndar Alþingis segir sérkennilegt að bandarísk stjórnvöld ætli ekki að bjóða Íslandi á stóra hafráðstefnu vegna hvalveiða, ekki sé þó tímabært að bregðast sérstaklega við. Hann telur málið ekki til marks um að kaflaskipti hafi orðið í samskiptum ríkjanna.

Fréttastofa RÚV greindi frá því í gær að Íslandi sé ekki boðið að sækja ráðstefnuna Our Ocean, sem bandaríska utanríkisráðuneytið stendur fyrir í næstu viku. Ástæðan er hvalveiðar Íslendinga. Birgir Ármannsson, formaður utanríkismálanefndar Alþingis, furðar sig á þessari ákvörðun.

„Þetta er auðvitað mjög sérkennilegt að Bandaríkjamenn skuli gera þetta með þessum hætti. Ég held samt að á þessu stigi þurfi menn aðeins að meta stöðuna og hvaða forsendur liggja þar að baki,“ sagði Birgir í samtali við RÚV í dag.

Hann sagði ágreining Bandaríkjanna og Íslands um hvalveiðar ekki nýjan af nálinni og á allra vitorði. „Þetta tiltekna mál kallar nú ekki á það að mínu mati að menn fari eitthvað á taugum en auðvitað hljóta menn að fylgjast með svona hreyfingum og bregðast við í samræmi við það.“

Össur Skarphéðinsson, fyrrverandi utanríkisráðherra, telur ákvörðun Bandaríkjastjórnar marka kaflaskil í samskiptunum ríkjanna en Birgir vill ekki taka svo djúpt í árinni. „Það er nú auðvitað þannig að Bandaríkin hafa lengi verið á meðal okkar helstu banda- og vináttuþjóða. Það er einlægur ásetningur núverandi ríkisstjórnar og stjórnarmeirihluta á þingi að efla þau tengsl. Frá því að ný ríkisstjórn tók við í fyrra þá hefur verið lögð sérstök áhersla á að efla tengslin vestur um haf. Maður vonar auðvitað að atvik af þessu tagi trufli ekki þá þróun.“

Hvorki Gunnar Bragi Sveinsson utanríkisráðherra né Sigurður Ingi Jóhannsson sjávarútvegsráðherra vildu tjá sig um málið þegar eftir því var leitað í morgun.