Athugið þessi frétt er meira en 8 ára gömul.

Ekki til jáeindaskanni á Íslandi

10.11.2014 - 15:05
epa03434827 An image showing the first PET-MRI scanner of the Netherlands being used at the academic hospital VUmc in Amsterdam, the Netherlands, 16 October 2012. With the new scanner, developed by Philips, it is possible to make a PET (positron emission
 Mynd:
Um 100 krabbameinssjúklingar eru sendir til útlanda á hverju ári til að fara í jáeindaskanna. Slíkt tæki hefur aldrei verið til hér á landi en rýma þyrfti húsnæði eða reisa nýtt til að hægt sé að koma honum upp hér, segir Jakob Jóhannsson, yfirlæknir við geislameðferð krabbameina á Landspítalanum.

Þegar læknir telur sig þurfa að fá betri upplýsingar um útbreiðslu krabbameins er sjúklingurinn sendur til útlanda í pet skanna eða jáeindaskanna. Sjúkratryggingar Íslands hafa greitt fyrir ferðirnar og gera má ráð fyrir að kostnaðurinn sé á bilinu ein til tvær milljónir á mann. Um 100 manns eru sendir á hverju ári. „Það er alveg ljóst að ef tækið væri hér á landi, þá myndum við senda fleiri sjúklinga heldur en við erum að gera núna, sem sagt senda fleiri í þessa rannsókn,“ segir Jakob. 

Tækið staðsetur krabbameinið
Tækið nýtist sérstaklega vel fyrir ýmsar tegundir af lungnakrabbameinum, eitlakrabbamein, leghálskrabbamein og krabbamein í koki. En ef tækið væri til hér væri líka hægt að nota það til að finna upprunastað krabbameins ef fólk greinist með meinvarp. „Og við notum þetta líka í sambandi við geislameðferðir eða myndum líka vilja það þegar við erum að ákvarða hvar við ætlum að geisla.“ Jakob segir að gott væri að vita til dæmis þá hvar lungnakrabbamein er staðsett svo hægt sé að beina geislanum nákvæmlega á staðinn.

Jáeindatæki hefur aldrei verið til hér en þau eru til annars staðar á Norðurlöndunum, í Evrópu og Bandaríkjunum. Það er stórt, því fylgir annað tæki sem býr til geislavirk efni og svo þarf sérþjálfað starfsfólk. „Það er líka spurning um húsnæðið, annað hvort þá tengt þá nýja spítalanum eða hreinlega byggja við það sem við erum með núna til að rýma fyrir þetta tæki,“ segir Jakob. Ekki sé einfalt að koma tækinu upp. „Það þarf ákveðinn undirbúning undir það en það er eitt af því sem þyrfti að fara að alla vega að huga að, finnst mér, núna allra allra næstu árin.“