Athugið þessi frétt er meira en 9 ára gömul.

Ekki þörf á auknu eftirliti

11.02.2013 - 13:10
Mynd með færslu
 Mynd:
Fréttir af hrossakjöti sem fundist hefur í frosnum réttum frá framleiðandanum Findus hafa komið illa við neytendur víða um heim.

Heilbrigðiseftirlit Reykjavíkur telur þó ekki brýna þörf á að auka eftirlit með samsetningu innfluttrar matvöru, þar sem málið snerti ekki matvælaöryggi heldur vörusvik.

Neytendur víða um heim eru æfir eftir að upp komst um vörusvik hjá matvælafyrirtækinu Findus sem sérhæfir sig í frosnum réttum. Í ljós kom í síðastliðinni viku að kjöt sem sagt var nautakjöt í innihaldslýsingu reyndist vera hrossakjöt. Matvælaeftirliti Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur var gert viðvart þegar upp komst um vörusvikin og varan var innkölluð.

Óskar Ísfeld Sigurðsson, deildarstjóri matvælaeftirlitsins, segir að samkvæmt matvælalöggjöfinni beri matvælafyrirtækjum að upplýsa opinbera aðila um þetta og með birtingu til neytenda sem hafi keypt þessa vöru og geti hugsanlega átt hana heima hjá sér.

Þrátt fyrir að málið hafi valdið töluverðu fjaðrafoki erlendis telur Óskar það ekki gefa tilefni til tíðari rannsókna á innfluttri matvöru. Jóhannes Gunnarsson, formaður Neytendasamtakanna, sagði í samtali við fréttastofu að þetta mál kallaði á tíðari prófanir og nánara eftirlit með innfluttum matvælum. Það væri hins vegar kostnaðarsamt fyrir samtökin og í verkahring eftirlitsaðilans, matvælaeftirlits Heilbrigðiseftirlitsins.

Óskar segist telja að þetta mál, eitt út af fyrir sig, þýði það ekkert endilega. Auðvitað væri gagnlegt að taka  fleiri sýni en gert sé í dag til að rannsaka innihald og bera saman við merkingar.

Þetta sé gert annað slagið í stórum eftirlitsverkefnum hér á landi, en Heilbrigðiseftirlitið þurfi eins og aðrir alltaf að forgangsraða sínum verkefnum og notkun á fjármunum. Óskar segir að lögð hafi verið aðaláherslu á mál sem varði matvælaöryggi, en þetta ákveðna mál, samkvæmt upplýsingum matvælaeftirlitsins, varði ekki matvælaöryggi.

Hrossakjötið hefur ferðast drjúga vegalengd áður en það fór í pakkana hjá Findus. Ferðlagið er svona: Hrossunum er slátrað í Rúmeníu og þaðan er kjötið sent til Hollands og því næst til Kýpur. Síðast er kjötið selt verksmiðjum í Lúxemborg í eigu franska matvælafyrirtækisins Comigel og þar eru frosnu réttirnir unnir. Findus er eitt þeirra fyrirtækja sem keypt hefur þessa rétti. Kjöt úr vinnslu Comigel er selt í 16 löndum, að því er fram kemur í breska blaðinu The Independent.