Athugið þessi frétt er meira en 7 ára gömul.

Ekki talað við börn hælisleitenda

12.02.2016 - 18:38
Mynd með færslu
 Mynd: ruv
Ekki er talað mikið við börn hælisleitenda sem koma hingað með foreldrum sínum segir Helga Guðmundsdóttir hjúkrunarfræðingur. Hún hefur rætt við börnin í tenglsum við rannsókn sem hún gerði.

Mikill munur er á aðstæðum barna hælisleitenda og kvótaflóttamanna sem hingað koma. Forsætisráðherra tekur á móti kvótaflóttamönnunum og þeirra bíður húsnæði, börnin fá herbergi, leikföng o.s.frv. Hælisleitendur þurfa hins vegar að bíða.

Þessi aðstöðumunur var ræddur á ráðstefnu um flóttabörn sem UNICEF og lögfræðisvið Háskólans á Bifröst stóðu fyrir. Þar sagði Helga frá rannsókn sem hún gerði á reynslu og upplifun barna og foreldra sem leita alþjóðlegrar verndar hér á landi. Markmiðið með henni var að varpa ljósi á reynslu og upplifun barna og foreldra sem leita alþjóðlegrar verndar á Íslandi.

Helga ræddi  m.a. við 12 börn en engar upplýsingar verða gefnar um kyn, aldur og þjóðerni þeirra til að vernda þau.

Hér eru setningar úr viðtölum sem hún tók við börnin. 

„Enginn hefur spurt mig hvernig mér líður"  

„Það er bara talað við mömmu og pabba"

Helga segir að börn sem leita alþjóðlegrar verndar með foreldrum sínum séu frekar ósýnileg í umsóknarferlinu.  

„Það er ekki talað mikið við þau, mjög fáir aðilar innan kerfisins sem tala við þau og spyrja út í líðan þeirra eða leita eftir upplýsingum frá þeim.“

„Stundum get ég ekki sofið, því ég er að hugsa eitthvað neikvætt. Neikvætt í sambandi við óþolandi bið, að vita ekki hvað verður"

Helga segir að foreldrar barnanna séu oft sjálfir í áfalli og biðin, þessi langa bið, er bæði foreldrum og börnum erfið.

„Manni leiðist og maður verður dapur. Að vera alltaf heima verður til þess að manni leiðist og líður illa"

„Þegar er langur biðtími þá hefur fólk endalausan tíma til að hugsa um hvað verður ef fjölskyldan er send til baka og börnin hugsa mikið um þetta líka, það getur valdið martröðum.“
 
 „Mikið álag að bíða eftir að fá að fara í skólann. Það er erfitt að fara í strætó og sjá alla nemendurna með skólatöskur og það lætur manni líða illa. Af hverju má ég ekki fara í skólann?"
 
 

Ekki er heldur skimað markvisst eftir andlegri líðan foreldra eða barna og ég held að það megi líka taka til endurskoðunar, segir Helga.  

„... núna er ég mjög ánægð því ég er nemandi ... þar til núna var ég ekkert"

 

Bergljót Baldursdóttir
Fréttastofa RÚV