Athugið þessi frétt er meira en 9 ára gömul.

Ekki slitið án þjóðaratkvæðagreiðslu

25.02.2014 - 14:42
Mynd með færslu
 Mynd:
Skrifstofa Framsóknarflokksins lofaði því á kjördag að þjóðin fengi að kjósa um það hvort aðildarviðræðum Íslendinga við Evrópusambandið yrði haldið áfram eða ekki. Það gerði hún í tölvupósti til kjósanda.

Fréttastofa hefur undir höndum tölvupóstssamskipti kjósanda við skrifstofu Framsóknarflokksins á kjördag. Í honum óskar kjósandinn,  sem ekki vill láta nafn síns getið, eftir skýrum svörum um það hvort þjóðin fái að kjósa um það í þjóðaratkvæðagreiðslu eða ekki hvort aðildarviðræðum við ESB verði haldið áfram. Fyrirspurninga sendi hann í gegnum gátt á vef Framsóknarflokksins, framsokn.is. 

Fyrirspurninni svarar Anna Kolbrún Árnadóttir.

Í svari sínu segir hún: „Skýrt kemur fram í stefnuskrá okkar að ekki verði haldið lengra í aðildarviðræðum við Evrópusambandið nema að undangenginni þjóðaratkvæðagreiðslu.“

Síðar segir Anna Kolbrún: „Vona að þetta svari spurningu þinni, kær kveðja.“

Vill skýrari svör

Kjósandinn var ekki ánægður með þetta svar og svarar: „Nei það gerir það ekki.“ Hann vísar því næst í viðtöl við Sigmund Davíð Gunnlaugsson og Frosta Sigurjónsson í sjónvarpinu og segir þá hafa verið óskýra. Svo líti út fyrir að þjóðaratkvæðagreiðslan eigi ekki að fara fram. Hann vilji skýr svör hvað þetta varðar, annars kjósi hann og fjölskylda hans annan flokk.

Stefnan einföld - Viðræðum ekki slitið án þess að þjóðaratkvæðagreiðsla fari fram

Anna Kolbrún svarar um hæl: „Sæll, stefnan er einföld. Aðildarviðræðum við ESB verður ekki slitið án þess að þjóðaratkvæðagreiðsla fari fram.“

Kjósandinn svarar: „Takk fyrir, vona að ég geti treyst þessu. Er farinn á kjörstað.“

Anna Kolbrún var á þessum tíma starfsmaður á kosningaskrifstofu Framsóknarflokksins. Aðspurð hvers vegna hún hafi svarað svona afdráttarlaust segir hún: „Ástæðan fyrir því að ég skrifa stefnan er einföld er að við höfðum fengið nokkuð marga pósta frá viðkomandi. Rökréttast hefði verið að setja Íslandi er betur borgið utan ESB.“

Hún segist hafa skilið stöðuna á þeim tíma sem svo að aðildarviðræðunum yrði ekki haldið áfram nema að undangenginni þjóðaratkvæðagreiðslu: „Össur var nýbúinn að gera hlé á viðræðunum og þá taldi ég að það yrði ekki haldið áfram nema að undangenginni þjóðaratkvæðagreiðslu,“ segir Anna Kolbrún, „Það var búið að gera hlé á viðræðunum og því héldu margir kjósendur Framsóknarflokksins að það yrði ekkert gert nema spyrja þjóðina fyrst.“

[email protected]