Ekki sátt við árangur VG í borginni

Mynd: RÚV / RÚV
Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra og formaður Vinstri grænna, kveðst ekki sátt við árangur flokksins í borgarstjórnarkosningum í gær. Flokkurinn fékk 2.700 atkvæði í Reykjavík, 4,6 prósent atkvæða og einn borgarfulltrúa. Hún kveðst reglulega íhuga stöðu sína sem formaður og að hún sé ekkert að fara að gefast upp núna.

„Ég vil byrja að segja að ég er ekki sátt við þennan árangur í Reykjavík. Þegar ég gekk hérna út í gær vorum við með 7,5 prósent sem var nærri árangri okkar 2014 og 2010. Ég var ekkert ósátt við það að halda þeim árangri,“ sagði Katrín í Silfrinu nú fyrir hádegi. Hún segir að hafa verði í huga að flokkurinn hafi ekki náð sama árangri á sveitarstjórnarstigi og í landsmálunum.

Egill Helgason, þáttastjórnandi í Silfrinu rifjaði í þessu samhengi upp niðurstöðu sveitarstjórnarkosninga árið 2006 þegar Framsóknarflokkurinn galt afhroð. Halldór Ásgrímsson hafi á þeim tíma verið formaður flokksins og forsætisráðherra og viku síðar hafi hann látið af þeim embættum. Katrín benti á að flokkurinn hefði árið 2014 verið með níu kjörna fulltrúa á landinu en væri nú með átta. „Ég er stjórnmálamaður sem velti reglulega fyrir mér stöðu minni og tel ekki að hún sé sjálfgefin. Ég er búin að fara víða um land fyrir þessar sveitarstjórnarkosningar og mín niðurstaða er sú að ég er ekkert að fara að gefast upp.“

Aðspurð að því hvort niðurstaðan sé refsing fyrir að vera í ríkisstjórn með Framsóknarflokki og Sjálfstæðisflokki, sagði Katrín að setja þyrfti málið í samhengi. Vinstri flokkar í ríkisstjórn hafi bæði á Norðurlöndum og í sögunni fengið vinstri framboð sér við hlið og ákveðna refsingu fyrir að vera í hvaða ríkisstjórn sem er. Það sé reynslan í Danmörku og Noregi og einnig reynsla Vinstri grænna frá þeim tíma þegar flokkurinn var síðast í ríkisstjórn. „Ég held að þetta sé flóknara en það. Ef við skoðun fylgi okkar á landsvísu þá er það allt annað en það fylgi sem við erum að uppskera í þessum sveitarstjórnarkosningum.“

dagnyhe's picture
Dagný Hulda Erlendsdóttir
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi