Athugið þessi frétt er meira en 8 ára gömul.

Ekki sambærilegt við höftin á 20. öld

18.10.2014 - 12:23
Mynd með færslu
 Mynd:
Umræða um losun fjármagnshafta er því marki brennd að fólk heldur að höftin séu sambærileg við það sem var á tuttugustu öld, segir Gylfi Zoëga hagfræðiprófessor. Núverandi höft hafi takmörkuð áhrif á líf almennings því öll viðskipti með vörur og þjónustu séu frjáls.

Seðlabankinn telur að nú séu aðstæður hagstæðar til að aflétta höftum og framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins tekur í sama streng í grein sem birtist í gær. Samtökin vilja nýta tækifærið og aflétta höftum sem fyrst. Afgangur sé af viðskiptum við útlönd, verðbólga hafi gengið niður, hagvöxtur sé sæmilegur og ríkisfjármál séu í jafnvægi.

Gylfi Zoëga, prófessor í hagfræði við Háskóla Íslands og nefndarmaður í peningastefnunefnd Seðlabankans, bendir á að þessar aðstæður hafi skapast við skilyrði hafta. Í fyrsta sinn í langan tíma megi til að mynda hugsa sér að lág verðbólga verði varanlegt fyrirbæri hér. Íslendingar séu ekki að missa af lestinni.

Hann segir að haftaumræðan sé því marki brennd að fólk haldi að höftin sem hér hafa verið síðustu ár séu sambærileg þeim sem voru á fyrri áratugum þegar þurfti innflutningsleyfi til að flytja inn ýmsar vörur. Á þeim tíma hafi gengið verið allt of hátt skráð. „Núna er gengi krónunnar það lágt að við erum með viðvarandi viðskiptaafgang, allavega enn sem komið er, og það eru fullkomlega frjáls viðskipti með vörur og þjónustu og þessi fjármagnshöft, ekki gjaldeyrishöft heldur fjármagnshöft, hafa mjög takmörkuð áhrif á líf almennings, fyrir utan það að búa til þennan stöðugleika sem við höfum haft,“ segir Gylfi. „En aðalatriðið er að tryggja fjárhagslegt öryggi landsins, fólksins sem býr hérna, og til þess að gera það þurfum við að hafa regluverkið nógu sterkt og stjórntækin nógu sterk til þess að við getum ráðið við þá krafta sem við leysum úr læðingi.“

Gylfi segir að aðgangur að erlendu lánsfé sé æskilegur fyrir atvinnulífið, erlend langtímafjárfesting í framleiðslutækjum sé nauðsynleg fyrir lífskjör í framtíðinni og æskilegt sé að búa vel að fyrirtækjum sem séu að vaxa og vilji dreifa starfsemi sinni um fleiri lönd. „En jafnframt að gera sér grein fyrir því að flæði fjármagns, sem felst í að notfæra sér vaxtamun milli landa til þess að hagnast, spákaupmennskuviðskipti með gjaldmiðla, geta verið stórhættuleg.“