Ekki reyndist þörf á slökkvistarfi um borð

13.09.2017 - 19:36
Mynd með færslu
 Mynd: Freyr Arnarson - RÚV
Hæsta viðbúnaðarstig var gefið út eftir að tilkynnt var um eld um borð í Airbus-farþegaþotu Wizz Air. 147 farþegar voru um borð. Vélin var á leið til Wrocklaw í Póllandi og var kominn yfir Mýrdalsjökul þegar henni var snúið aftur til Keflavíkur þar sem hún lenti skömmu fyrir klukkan átta í kvöld. Upplýsingafulltrúi ISAVIA segir að allt hafi gengið að óskum þegar vélin lenti og að ekki hafi reynst þörf á slökkvistarfi um borð. Vélin var síðan affermd með eðlilegum hætti.

Frétt uppfærð klukkan 20:28

Allir viðbragðsaðilar voru kallaðir til eftir að tilkynningin barst. Tvær þyrlur Landhelgisgæslunnar voru kallaðar út og önnur þeirra send í loftið. Liðsauki frá slökkviliði höfuðborgarsvæðisins var sendur á vettvang og björgunarsveitir settar í viðbragðsstöðu. Samkvæmt upplýsingum fréttastofu var tilkynnt um eld í salerni vélarinnar.

Gunnar Sigurðsson, upplýsingafulltrúi ISAVIA, staðfesti í samtali við fréttastofu að tilkynnt hefði verið um eld um borð í farþegaþotu Wizz Air. „Þetta var hæsta viðbúnaðarstig og allir viðbragðsaðilar, slökkvilið, sjúkraflutningar, lögregla og björgunarsveitir, voru kallaðir út.“ Viðbragðsstigið var síðan afturkallað tæpum fjörutíu mínútum síðar. 

Samhæfingarmiðstöðin í Skógarhlíð var virkjuð vegna málsins en vélin lenti skömmu fyrir klukkan átta og segir Gunnar að allt hafi gengið að óskum. Ekki hafi reynst þörf á að slökkvistarfi um borð og vélin hafi verið affermd með eðlilegum hætti. „Þarna urðu engin slys á fólki.“

Mynd með færslu
 Mynd: Skjáskot - RÚV
Leið vélarinnar eftir að henni var snúið við.
freyrgigja's picture
Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi