Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Ekki pláss fyrir öll vindorkuverin

30.04.2019 - 14:00
Mynd með færslu
 Mynd: Jóhannes Jónsson - RUV.IS
Flutningskerfi Landsnets á Vesturlandi getur aðeins flutt 85 megavött af rafafli til viðbótar. Þess vegna getur aðeins eitt vindorkuver komist að í flutningskerfinu án fjárfestingar í kerfinu, miðað við áætlanir tveggja fyrirtækja sem hafa kynnt áform sín.

Þetta kemur fram í svari Landsnets við fyrirspurn fréttastofu. Tvö fyrirtæki sem ætla að reisa vindorkuver í Reykhólahreppi á Vestfjörðum annars vegar og í Dalabyggð hins vegar hafa skilað matstillögum til umhverfismats til Skipulagsstofnunar. Fleiri aðilar eru sagðir vera að kanna möguleikann á vindorkuvirkjunum á Vesturlandi.

Ekki liggur fyrir hver fjárfestingarþörfin í flutningskerfi Landsnets er og heldur ekki hverjar takmarkanir kerfisins eru eða hvernig kostnaðarskiptingu aðila verði háttað. Um þessar mundir er verið að fara yfir stöðu og áætlanir þeirra sem hafa rætt við Landsnet um tengingu virkjana við dreifikerfið.

„Þeir aðilar sem hafa verið í sambandi við okkur hafa allir verið upplýstir um að á þeim stað í flutningskerfinu sem fyrirhuguð virkjun þeirra yrði tengd er einungis ein flutningslína til staðar,“ segir í skriflegu svari Steinunnar Þorsteinsdóttur, upplýsingafulltrúa Landsnets.

Verulegar takmarkanir eru á flutningi raforku um línuna. „Einungis er til staðar hámarks ónotuð flutningsgeta upp á um 85 MW afl og hafa ber í huga að tenging aðila á einu svæði getur haft áhrif á öðru svæði.“

Framkvæmdir munu taka tíma

Á Landsneti hvílir sú skylda að tengja alla lögboðna viðskiptavini, svo sem dreifiveitur, stórnotendur og virkjanir, við flutningskerfið ef þeir uppfylla tiltekin skilyrði.

Sérstök skylda er að tengja stærri virkjanir beint við flutningskerfið. Virkjanir sem framleiða minna en 10 megavött má tengja um dreifiveitu.

Þær framkvæmdir sem þarf að ráðast í verða tímafrekar, að því er kemur fram í svarinu og óvíst hvort hægt verði að mæta þörfum vindorkuveranna og rekstrarfyrirtækja þeirra strax.

„Líkur kunna því að vera á því að beita þurfi undantekningarákvæði raforkulaga og synja einhverjum þeirra sem eftir hafa leitað um aðgang að flutningskerfinu tímabundið,“ segir í svari Steinunnar.

Samkvæmt þeim áætlunum sem birtar hafa verið á vef Skipulagsstofnunar er gert ráð fyrir að framkvæmdir við vindorkuverin geti hafist eftir minnst eitt ár.

Áætlun Storm orku ehf. um vindorkuver að Hróðnýjarstöðum í Dalabyggð gerir ráð fyrir að framkvæmdir geti hafist í fyrsta lagi eftir um það bil ár. Hitt vindorkuverið á að í Garpsdal í Reykhólahreppi. EM-Orka ehf. gerir ráð fyrir að framkvæmdir geti hafist í fyrsta lagi á næsta ári.

Áætlað er að í fyrsta áfanga verkefnisins að Hróðnýjarstöðum verði uppsett afl 83,16 megavött. Vindorkuver í Garpsdal er sagður geta bera allt að 130 megavatta vindorkugarð.