Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Ekki nógu skýr stefna um vopnaflutninga

Mynd: RÚV / RÚV
Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, formaður Viðreisnar, gagnrýnir að ekki sé nógu skýr stefna hér á landi um vopnaflutninga þrátt fyrir að álíka mál hafi áður komið upp. Logi Einarsson, formaður Samfylkingarinnar, segir að fara þurfi yfir stjórnsýsluna og ábyrgð ráðherra.

Fjalllað var um vopnaflutninga Air Atlanta í Silfrinu í morgun.

Þorgerður Katrín furðar sig á því að ekki hafi verið sett skýr stefna um vopnaflutninga eftir umræðu liðinna ára um hugsanlegan flutning kjarnorkuvopna. „Þá hefði maður haldið að bæði utanríkisráðuneytið og samgönguráðuneytið væru búin að setja þetta mál í ákveðna ferla vegna þess að við viljum ekki að þetta komi upp með ákveðnu millibili.“

Hún segir að Ísland sé ekki að innleiða skuldbindingar sínar á alþjóðavettvangi. „Það er verið að skrifa í útlöndum undir mjög merkilega samninga á þessu sviði sem öðrum. [...] Við tölum digurbarkalega, erum að segja fína hluti í útlöndum en þegar heim er komið þá er þessu ekki fylgt eftir. Stjórnsýslan er í samræmi við það. Ég finn að það er verið að kalla eftir ábyrgð forstjóra Samgöngustofu og embættismanna og auðvitað er þeirra ábyrgð mjög mikil en pólitíska stefnan er ekki nægilega skýr. Það er ekki verið að skýra skýrt frá í samgönguráðuneytinu og utanríkisráðuneytinu fyrr en nú. Mér fannst Sigurður Ingi Jóhannsson gera vel grein fyrir því hvernig hann hygðist fara í þetta og ég held að við eigum að horfa til framtíðar. En þetta má bara ekki gerast aftur. Tökum skuldbindingar okkar alvarlega.“ 

Logi Einarsson, formaður Samfylkingarinnar, segir málið ömurlegt í ljósi þess að stærsta framlag Íslendinga til friðarmála í heiminum snúist um mannúð, hjálparstarf og ekki síst um að sýna gott fordæmi. „Það þarf að fara yfir stjórnsýsluna, ábyrgð ráðherra, umræður á þingi en almennt eigum við að fara að tala um siðferði í stjórnmálum.“

Ragnheiður Elín Árnadóttir, rifjaði upp að hún var aðstoðarmaður í utanríkisráðuneytinu þegar álíka mál kom upp, fangaflugsmálið. „Og ég held að engin ríkisstjórn á Íslandi, enginn ráðherra á Íslandi hafi þannig siðferði, sem myndi telja slíka háttsemi í lagi. Ég get sagt að í þeirri ríkisstjórn sem ég sat í var ekki mikið rætt um vopnaflutninga, bara ekki neitt og ég efast um að ríkisstjórnin sem tók þá við og Þorgerður sat í hafi mikið rætt um þessi mál. Þannig að andvaraleysi, kannski.“ Skilaboðin þurfi að koma úr stjórnmálunum að þetta líðist ekki.  

Þorgerður Katrín telur að forstjóri Samgöngustofu þurfi ekki að víkja vegna málsins. „Að því leytinu að þetta er að koma upp aftur og aftur og stjórnmálin eru síðan rosa hissa. Ég held að þingið eigi að gefa stjórnsýslunni og ríkisstjórninni mánuð síðan köllum við þá aftur eftir mánuð og segjum í hvaða farveg er þetta komið? Hvaða reglur eruð þið búin að setja upp? Hvernig ætlar Samgöngustofa að leysa þetta héðan í frá? Ég er alltaf að kalla eftir ábyrgð utanríkisráðuneytisins, þau hljóta að hafa skoðun á því hvernig við ætlum að uppfylla alþjóðlegar skuldbindingar og samninga, því nógu sterkar skoðanir eru alltaf að koma þaðan um alls konar skuldbindingar.“

Þorgerður segir greinilegt að miklir gallar séu í kerfinu. „Útlendingastofnun hagar sér svolítið eftir því hvernig pólitíkin er hverju sinni og hver er ráðherra hverju sinni. Það er alveg ljóst að það hefur komið stefna frá ríkisstjórninni í útlendingamálum, sem að mínu mati þarf að breyta. Er það þá ekki það sama í þessu. Er það þá ekki það sama í þessu. Er þetta ekki bara eitthvað sem samgöngustofa hefur unnið eftir eftir fyrirmælum frá samgönguráðherra hverju sinni eða ekki síður utanríkisráðuneytinu.“

Þorgerður segist allt eins hallast að því að tekin hafi verið pólitísk ákvörðun um að þetta sé í lagi. „Mér finnst þetta ekki bara gloppótt, mér finnst þetta vera sinnuleysi, og sinnuleysið er ekki endilega embættismanna heldur einnig stjórnmálamanna. Þetta er eitthvað sem við verðum að taka á.“

Logi segir að ef lögin eru ekki skýr verði að breyta lögunum. „Mér finnst þetta mál opinbera tvöfalt siðferði hjá okkur. Hræsni jafnvel. Við tölum um frið en leyfum samt vopnaflutninga til Sádi Arabíu sem líklega eru send áfram til Sýrlands og Jemen. Þar er fólk drepið, börn og konur og aðrir fara á flótta. Við setjum upp girðingar og segjum: Við getum tekið nokkra, við getum ekki tekið marga. Við erum komin í svo ljótan leik og ljótan heim og þurfum að fara að ræða grundvallargildi okkar.“

Horfa má á allt viðtalið í spilaranum hér fyrir ofan. 

Ásrún Brynja Ingvarsdóttir
Fréttastofa RÚV