Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Ekki nógu sambærilegt máli Baugsmanna

21.09.2017 - 17:01
Mynd með færslu
 Mynd: Anton Brink RÚV - RÚV Anton Brink
Saksóknari má ákæra menn fyrir skattalagabrot, þótt skattayfirvöld hafi áður refsað þeim með 25% álagi ofan á vangoldna skatta. Klofinn Hæstiréttur komst að þessari niðurstöðu í dag í stefnumarkandi máli. Hæstiréttur telur að skattamál Baugsmanna, sem Mannréttindadómstóll Evrópu dæmdi íslenska ríkið brotlegt í, sé ekki nógu sambærilegt þessu máli til að það hafi fordæmisgildi fyrir það. Tugir mála hafa beðið í kerfinu eftir þessum dómi.

Sjö dómarar dæmdu í málinu í dag, sem er aðeins gert í grundvallarmálum sem þykja stefnumarkandi og fordæmisgefandi. Í því var maður dæmdur í þriggja mánaða óskilorðsbundið fangelsi og til að greiða 13,8 milljóna króna sekt í ríkissjóð fyrir að telja ekki fram 80 milljóna fjármagnstekjur árin 2008 og 2009. Áður hafði maðurinn gengist við broti sínu hjá skattayfirvöldum og borið við gáleysi. Skattayfirvöld lögðu þá 25% álag á skattstofninn og hann greiddi skatt samkvæmt því.

Mál Baugsmanna var of umfangsmikið og langt

Maðurinn hélt því fram að með dómi héraðsdóms hefði honum verið gerð refsing fyrir sama brot í annað sinn, sem væri brot á reglum um tvöfalda refingu. Hann vísaði meðal annars í áðurnefnt mál gegn Baugsmönnunum Jóni Ásgeiri Jóhannessyni og Tryggva Jónssyni, sem Mannréttindadómstóll Evrópu sagði að hefði falið í sér brot gegn þessum sömu reglum.

Niðurstaða Hæstaréttar er, sem áður segir, að mál mannsins sé ekki nógu sambærilegt máli Baugsmannanna til að það hafi þar fordæmi. Mál þeirra hafi verið svo umfangsmikið og tekið svo mikinn tíma að málareksturinn allur hafi ekki myndað samfellda heild, sem hafi brotið gegn réttindum þeirra.

Það sama sé ekki að segja um þetta mál, þótt það hafi tekið samtals fjölmörg ár. Hluti þess tíma var vegna þess að málið var um skeið í biðstöðu á meðan beðið var eftir dómum í málum Baugsmannanna.

Heimilt að reka tvö mál samtímis

Hæstiréttur segir að ekki sé óheimilt að reka tvö sakamál á hendur mönnum vegna sömu málsatvika samhliða, ef embættin sem það gera hafa með höndum ólík verkefni og rannsóknaraðferðir, eins og í tilviki saksóknara og skattayfirvalda hér á landi. Þannig hafi saksóknari til dæmis fyrst og fremst horft til þess við rannsókn sína hvort brotið hafi verið stórfellt að lögum og hvort aðrir hafi mögulega komið að því. Það hefðu skattayfirvöld ekki getað rannsakað.

Ef nægileg samfella sé í tveimur rannsóknum af þessu tagi þá brjóti það ekki gegn reglum um tvöfalda málsmeðferð.

Hæstiréttu klofnaði – tugir mála á bið eftir dómnum

Hæstiréttur klofnaði í málinu. Einn dómaranna, Benedikt Bogason, skilaði sératkvæði og taldi að vísa bæri málinu frá eins og maðurinn hafði krafist. Benedikt telur, ólíkt meðdómurum sínum, að málið sé nægilega líkt máli Baugsmannanna til að það eigi að hafa fordæmisgildi.

Tugum mála hefur verið frestað hjá ákæruvaldinu og dómstólum undanfarna mánuði á meðan beðið hefur verið eftir þessum dómi Hæstaréttar.