Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Ekki nóg hey fyrir hross?

03.12.2015 - 17:24
Mynd með færslu
 Mynd: Samúel Örn Erlingsson - RÚV
Mynd með færslu
 Mynd: Samúel Örn Erlingsson - RÚV
Fannfergi undanfarna daga á Suðurlandi gæti haft þær afleiðingar að heyforði fyrir hross verði í knappasta lagi. „Það er ljóst að margir fengu í ár minni hey en áður. Þessi snjór undanfarið gæti lengt gjafatíma fyrir hross um að minnsta kosti mánuð“, segir Sveinn Sigurmundsson framkvæmdastjóri Búnaðarsambands Suðurlands.

Snjórinn undanfarið breytir litlu varðandi heyþörf fyrir kýr og sauðfé. Sá heyskapur er í föstum skorðum, kindur og kýr eru að mestu inni á vetrum og fóðurþörfin því fyrirséð. En það er mismunandi á milli ára hve lengi þarf að gefa útigangshrossum. Sveinn segir að verði jarðbönn í vetur héðan í frá, sé ljóst að heyþörf verði mun meiri en annars. „Þá verður þessi vetur gjafafrekur og gæti vantað hey hjá einhverjum. Það bætir heldur ekki úr þegar margur hefur minni hey frá síðasta sumri, að fyrningar frá árinu 2014 nýtast ekki vel. Hey voru almennt mjög léleg í fyrra“.

Staðan á Suðurlandi gæti orðið nokkru betri ef hlánar fljótt. Hagar voru víða í góðu standi áður en snjóaði. Gróður og spretta héldu sér lengi fram eftir hausti. En beit fer þó oft illa þegar snjórinn leggst á og treðst mikið þegar hrossin krafsa upp snjó.

Samúel Örn Erlingsson
Fréttastofa RÚV