Ekki nóg að þingmenn fari í leyfi

03.12.2018 - 12:51
Mynd:  / 
Rósa Björk Brynjólfsdóttir, þingmaður Vinstri grænna, segir ekki nóg að þingmennirnir Gunnar Bragi Sveinsson og Bergþór Ólason úr Miðflokki fari í leyfi. Hún segir að þingflokkar og stjórnmálaflokkarnir hverra þingmann sátu að drykkju á Klaustri verði að

„Við erum nokkrir þingmenn úr fjórum flokkum sem höfum sent formlegt erindi til forsætisnefndar um að hún beini því, ef þörf er á, til siðanefndar hvort þessir sex þingmenn sem um ræðir hafi gerst brotlegir við siðareglur þingsins,“ segir Rósa Björk en tekur ekki fram hvort hún telji ljóst hver niðurstaðan yrði. „Við erum ekki dómarar í því en það bendir allt, mjög mikið, til þess að þeir hafi gerst brotlegir við siðareglur. Þá fimmtu og sjöundu grein siðareglna. Svo má líka velta því fyrir sér, og það er þá siðanefndar, eða forsætisnefndar að beina því til siðanefndar, að kanna líka hvort þeir hafi gerst brotlegir við ellefu og tólfu grein siðanefndar.“

Rósu Björk finnst ekki nóg að Gunnar Bragi og Bergþór hafi farið í leyfi. „Viðkomandi þingmenn verða að gera það upp við sig en ekki síður þingflokkar viðkomandi stjórnmálaflokka og stjórnmálaflokkarnir sjálfir.“ Hún segir það mjög mikilvæg skipaboð fyrir Alþingi, stjórnmálahefð og samfélagið allt að þingið taki málið föstum tökum og gefi skýrt út að svona hegðun sé ekki liðin.

Brynjólfur Þór Guðmundsson
Fréttastofa RÚV