Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Ekki nóg að knýja fram sameiningar

10.11.2018 - 20:15
Ekki hefur tekist að jafna þjónustu við íbúa með sameiningum sveitarfélaga, segir stjórnmálafræðiprófessor. Ekki sé nóg að knýja fram sameiningar, heldur verði sveitarstjórnarfólk að vinna vel úr þeim. 

Sveitarfélögin eru 72 talsins og eru þau ólík að stærð og gerð. Umræða um sameiningar skýtur reglulega upp kollinum og hefur ráðherra boðað átak í þá veru. Þótt sveitarfélögum hafi fækkað sáralítið á allra síðustu misserum, þá eru þau um helmingi færri í dag en fyrir 20 árum. Reynsla íbúa af þessum sameiningum er býsna misjöfn, og virðist að nokkru leyti ráðast af því hvar í sameinuðu sveitarfélagi fólk býr.

Íbúar í stærstu byggðakjörnum ánægðari

„Í kjörnunum þá upplifir fólk jákvæðari þróun í þjónustunni frekar en í því sem við köllum jaðrana, sem eru sveitir, kauptún og minni bæir sem eru þá kannski ekki í aðalhlutverki,“ segir Grétar Þór Eyþórsson, prófessor í stjórnmálafræði. Þetta kemur fram í könnun Grétars og Vífils Karlssonar hagfræðings, meðal sveitarstjórnarfólks um allt land og íbúa í átta sameinuðum sveitarfélögum. Grétar segir þetta í samræmi við væntingar fólks fyrir fram, enda séu íbúar í stærstu byggðakjörnum frekar hlynntir sameiningu en aðrir.

Ekki tekist að jafna þjónustu

Þegar spurt var um einstaka málaflokka virðist sameining þó almennt hafa bætt þjónustu. „Maður hlýtur nú samt að álykta að það hafi ekki tekist að jafna þjónustuna á öllum svæðum, með sameiningu, enda það kannski ekki alltaf raunhæft að búast við því,“ segir Grétar. Bætt þjónusta við alla íbúa sé þó ein af meginröksemdum fyrir sameiningum, auk þess að stuðla að skilvirkni og stærðarhagkvæmni.

Sveitarstjórnarfólk þurfi að vanda sig

Grétar segir að niðurstöður þessarar rannsóknar séu í takt við sambærilega rannsókn sem hann og Hjalti Jóhannesson gerðu árið 2002. Ýmislegt bendi til þess að íbúar á ákveðnum stöðum upplifi sig út undan og það sé umhugsunarefni fyrir sveitarstjórnarfólk. „Það er ekki nóg að komast í gegnum kosninguna og fá sameininguna samþykkta, það þarf líka að vinna í málunum, undirbúa þau og vanda sig eftir að sameiningin er búin,“ segir Grétar. 

jonthk's picture
Jón Þór Kristjánsson
Fréttastofa RÚV