„Ekki mörg hjónabönd sem endast svona lengi“

Mynd: Jón Þór Víglundsson / RÚV

„Ekki mörg hjónabönd sem endast svona lengi“

17.12.2017 - 11:03

Höfundar

Sigur Rós lýkur heimstónleikaferðalagi sínu með fernum tónleikum í Hörpu milli jóla og nýárs og heldur samhliða þeim listahátíðina Norður og niður. Jónsi og Georg Holm ræddu hátíðina, tónlistarbransann, lífið í LA, brotthvarf hljómborðsleikarans Kjartans Sveinssonar og margt fleira í viðtali við Ólaf Pál Gunnarsson í Rokklandi.

Jón Þór Birgisson og Georg Holm komu nýlega til landsins eftir sex vikna tónleikaferðalag um Evrópu. Allt í allt hafa þeir verið á ferð um heiminn í næstum tvö ár með stöku hléum. Á þessum túr ákváðu þeir að sleppa öllum strengja- og blástursleikurum og koma nú einungis fram sem tríó. „Þannig var nú hljómsveitin stofnuð,“ segir Georg en þeir Jón Þór stofnuðu hljómsveitina ásamt trommaranum Ágústi Ævari Gunnarssyni árið 1994. Orri Dýrason kom í hans stað árið 1999.

Tónleikar Sigur Rósar í Frakklandi í fyrra.

„Það var nú kannski líka til að sanna fyrir sjálfum okkur að við gætum þetta ennþá bara þrír eins og í gamla daga,“ bætir Jónsi við. Þeir eru sammála um að stemningin sé nokkuð nánari núna þegar þeir eru ekki með her af hljóðfæraleikurum með sér en það sé líka bætt upp með heljarinnar ljósasýningu og tæknibrellum. „Ekki alveg eldsprengingar eins og hjá Rammstein en samt mjög sjónrænt,“ segir Georg. „En líka bara meira rokk og back to basics,“ segir Jónsi.

Mynd með færslu
 Mynd: Drew de F Fawkes - Wikimedia Commons
Jónsi á tónleikum í Brighton.

Tónlistarbransinn hefur breyst gríðarlega á þeim næstum því aldarfjórðungi sem sveitin hefur verið starfandi. „Þegar við vorum að byrja fórstu á túr til að kynna plötuna þína, svo breyttist það yfir í að þú gefur út plötu til að geta farið á túrinn,“ segir Georg. Fyrir tveimur til þremur áratugum var algengt að plötur seldust í milljónum eintaka á viku, í dag heyrir það til undantekninga að plata seljist í fleiri en milljón eintökum og ekki er mikið að hafa upp úr Spotify. En hvað skyldu Sigur Rósar-liðar hafa upp úr plötusölu? „Eitthvað voða lítið, við vitum það í rauninni ekki,“ segir Jónsi. „Þú verður að spyrja umboðsmanninn okkar. En ég held að við fáum eiginlega bara laun fyrir tónleika- og bolasölu.“ Þá hafa margir tekjur af því að leyfa notkun tónlistar í auglýsingar. Sigur Rós hefur alltaf verið mjög treg til að leyfa slíkt en hefur frekar leyft notkun í kvikmyndum, stiklum fyrir kvikmyndir og þætti, svo sem Vanilla Sky og Life Aquatic

Lagið Starálfur var notað í hádramatísku atriði í kvikmyndinni The Life Aquatic with Steve Zissou eftir Wes Anderson.

Þegar þeir eru ekki á ferð og flugi um heiminn býr Georg á Íslandi, trommarinn Orri Dýrason í London en Jónsi býr með kærasta sínum Alex Somers til skiptis á Íslandi og í LA. „Að búa í LA er andstaðan við Ísland. Alltaf sól, blár himinn og maturinn geggjaður. Á Íslandi er allt kalt, svart, þunglynt og glataður matur.“ Hann segir líka að í borginni hafi margt breyst til hins betra á síðustu 15 árum. „Þá var bara fólk í hvítum hörbuxum með botox framan í sér, nú er komið meira af yngra fólki sem er kannski að flýja New York því leigan er of há.“

Allt hellað og allir í þunglyndi

Jónsi og Georg segja að þeir reyni alltaf að spila á Íslandi þegar þeir fari í tónleikaferð en listahátíðin Norður og niður sem haldin verður 27.–30. desember samhliða tónleikum Sigur Rósar í Hörpu hafi verið lítil hugmynd sem fór úr böndunum. „Þetta var bara bullsamtal sem vatt svo upp á sig,“ segir Jónsi og bætir við að þetta sé góður tími fyrir viðburð af þessu tagi. „Allt er hellað, allir í þunglyndi yfir að hátíðirnar séu að verða búnar.“ Þeir hafi því slegið upp listaveislu og boðið tónlistarfólki og öðrum sem þeir hafa unnið með eða hafa sérstakt dálæti á. „Þetta er miklu meiri vinna en maður hélt, aðeins meira batterí heldur en fermingarveisla,“ segir Jónsi glettinn.

Lag af plötu My Bloody Valentine, Loveless. Forsprakki hennar, Kevin Shields kemur fram á Norður og niður

Uppselt er á alla ferna tónleika Sigur Rósar í Eldborg en enn eru til miðar á listahátíðina. Meðal erlendra tónlistarmanna á hátíðinni eru Kevin Shields (sem áður var í hljómsveitinni My Bloody Valentine), Ulrich Schnauss, Peaches, Alexis Taylor úr Hot Chip, Dan Deacon og Jarvis Cocker sem gerði garðinn frægan með Pulp.

Dan Deacon kom fram á eftirminnilegum tónleikum á Iceland Airwaves hátíðinni 2010.

Þá láta íslenskar kanónur eins og GusGus, Jóhann Jóhannsson, Amiina og Mammút ljós sitt skína. Sveitin My Bloody Valentine og platan hennar, Loveless, hafði talsverð áhrif á þróun Sigur Rósar svo að þeir eru ánægðir með að fá Kevin Shields. „Ég hef mjög góðar minningar frá þeirri plötu,“ segir Jónsi. „Þegar maður er ungur er maður áhrifagjarn, dramatískur og tekur mikið inn á sig, mismikið af því festist. Maður byrjar á því að reyna að spila eins og einhverjir aðrir, svo hægt og rólega finnur maður eigin stíl.“

epa05481679 Jonsi Birgisson performs during the concert of the Icelandic post-rock band Sigur Ros at the 24th Sziget Festival, in Budapest, Hungary, 13 August 2016. The festival, which runs from 10 to 17 August, is one of the biggest cultural events of
 Mynd: EPA
Tónleikar Sigur Rósar í Ungverjalandi frá síðasta ári.

Georg og Jónsi lofa mikilli hátíðarstemningu í Hörpu milli jóla og nýárs þar sem eitthvað verði um að vera alls staðar í húsinu. Auk tónleika verða danssýningar, myndlist og sala á fágætum vínylplötum með handgerðum umslögum sem listamenn á staðnum gera. 

Ein vídd dettur út en aðrar opnast

Georg og Jónsi segja að brotthvarf Kjartans Sveinssonar hljómborðsleikara fyrir fjórum árum hafi neytt þá til að hugsa ýmislegt í tónlistinni upp á nýtt. „Það var erfitt og skrýtið eftir að hafa unnið með honum í 15 ár. Þegar hann hættir dettur ein vídd út, en þá kannski opnast eitthvað annað.“ Síðasta plata Sigur Rósar, Kveikur, var nokkuð hrá og rokkuð og strákarnir segja að næsta plata verði öðru vísi. Vinnan við hana gengur vel. „Það er komin einhver mynd á hana en maður veit ekki alveg hvert hún stefnir ennþá. En með hverri plötu hefur sándið okkar alltaf breyst.“

Myndbandið við lagið Gobbledigok var tekið af Youtube á sínum tíma því það þótti of dónalegt fyrir viðmið myndbandsveitunnar.

En hvenær er þá von á gripnum? „Planið er að reyna að klára hana á næsta ári,“ segir Georg en bætir við að hann sé mögulega að lofa upp í ermina á sér, það sé ekkert víst að platan komi þá. „Jú, hún kemur bara á næsta ári,“ skýtur Jónsi inn í. „Kemur hún? Ókei, já, já, þá kemur hún bara á næsta ári,“ samsinnir Georg hissa. Þeir ætluðu fyrst að reyna að semja meðan þeir voru á túrnum en komust fljótt af því að það væri hreinlega of mikið.

Mesta lagi einn kokteill á frídeginum

Jónsi segir að það sé mjög skrýtið að fara í svona tónleikaferðalag. „Maður ferðast út um allar trissur, vaknar á nýjum stað í rútu, fær sér morgunmat og svo sándtékk og svo kvöldmat. Maður er einhvern veginn bara að spara sig fyrir þessa tvo tíma sem maður er á sviði að spila og þarf að gefa allt í þetta,“ segir Georg. „Já, þetta er gífurleg tveggja tíma orkusprengja og maður þarf að hvíla sig,“ bætir Jónsi við. „Fólk spyr kannski hvernig einhver staður hafi verið og maður bara „öhh ég veit það ekki, ég sá bara rútuna, hótelherbergið og tónleikastaðinn.““ Jafnvel þegar frídagar eru setji þeir oft bara „do not disturb“ skilti á hurðina og hittist í einn kokteil um kvöldið áður en þeir fari snemma í rúmið til að safna orku.

Titillag síðustu breiðskífu Sigur Rósar sem kom út 2013.

Á tónlistarhátíðinni Norður og niður kemur meðal annars fram skoska sveitin Mogwai, sem hefur eins og Sigur Rós verið flokkuð sem svokallað póst-rokk. „Maður er náttúrulega búinn að spila oft með þeim hér og þar og þekkjum þá. Það er gaman að fá þá hingað, þeir voru einmitt að gefa út nýja plötu.“ Jarvis Cocker forsprakki Pulp ætlar að spila nýtt óútgefið sólóefni á hátíðinni. „Hann er náttúrulega goðsögn sem maður ólst upp með; ég fór á svo eftirminnilega tónleika með Pulp í Laugardagshöllinni,“ segir Jónsi.

Eitt vinsælasta lag Pulp.

En á hátíðinni verður ekki bara tónlist. „Íslenski dansflokkurinn með Ernu Ómarsdóttir í farabroddi frumsýnir nýtt dansverk með nýrri óútgefinni tónlist eftir okkur,“ segir Jónsi. Þá verða líka bíósýningar og fyrirlesarar, en meðal þeirra er Nelly Ben Hayoun sem hefur meðal annars starfað hjá NASA og SETI. „Hún er nett biluð og ætlar að halda fyrirlestur um leitina að geimverum,“ segir Georg. „Við ætlum að breyta Hörpu þannig að þetta verður allt öðru vísi en flugvallarstemmningin. Það verður eitthvað að gerast í hverju horni.“

Sigur Rós hefur nú starfað í 24 ár; skyldu þeir aldrei verða leiðir á þessu? „Þetta er ekki alltaf dans á rósum, það koma erfiðir tímir,“ segir Jónsi. „Það er skrýtið að vera með einhverjum í hljómsveit í 24 ár. Það eru ekki mörg hjónabönd sem endast svona lengi. En við ætlum að halda áfram eins lengi og við höfum gaman af þessu.“

Ólafur Páll Gunnarsson ræddi við Jón Þór Birgisson og Georg Holm í Rokklandi.

Tengdar fréttir

Tónlist

Gámar á leiðinni fyrir tónleika Sigur Rósar

Tónlist

Jarvis Cocker á listahátíð Sigur Rósar í Hörpu

Tónlist

Sigur Rós heldur Norður og niður

Mynd með færslu
Menningarefni

Sigur Rós: „Biðjum ykkur um að treysta okkur“