Athugið þessi frétt er meira en 5 ára gömul.

Ekki lengur búist við frestun á talningu í NA

Mynd með færslu
 Mynd: Rögnvaldur Már - RÚV
Ekki er lengur búist við miklum töfum á talningu atkvæða í Norðausturkjördæmi vegna veðurs um helgina. Formaður yfirkjörstjórnar segir að í gær hafi útlit ekki verið gott fyrir flug á laugardagskvöldinu, en veðurspáin hafi nú batnað, og því verði líklega hægt að fljúga kjörkössum frá Egilsstöðum til Akureyrar. 

 

Á forsíðu Morgunblaðsins í dag segir að búist sé við því að vont veður um komandi kosningahelgi geti tafið talningu atkvæða í Norðausturkjördæmi fram á sunnudag. Ef ekki verður flogið þýðir það að atkvæðaseðlar frá Egilsstöðum þurfi að koma landleiðina til Akureyrar. Gestur Jónsson, formaður yfirkjörstjórnar Norðausturkjördæmis, segir að veðurspáin hafi batnað töluvert síðan í gær og snjókoman sem var í kortunum sé ekki lengur til staðar. Þó hafi verið gerðar ráðstafanir til að ná seðlunum landleiðina til Akureyrar. 

Talningu lýkur um morguninn

„Það mun tefja okkur eitthvað en það bendir allt til þess að við náum atkvæðunum um nóttina á talningarstað. Það er flogið með atkvæðin frá Egilsstöðum, en keyrt frá Vopnafirði og til Akureyrar. En flogið með það sem er fyrir sunnan Vopnafjörð,” segir Gestur. Hann bætir við að talningu verði aldrei lokið fyrr en klukkan sjö eða átta um morguninn. Búist er við kössunum að austan til Akureyrar upp úr miðnætti. 

„Kjörseðlarnir eru stórir, það er seinlegt að telja svona stóra seðla, þeir eru þríbrotnir. Og síðan er töluverður fjöldi utankjörfundaratkvæða sem tefur líka vinnuna því það er ekki hægt að fara að vinna í þeim fyrr en eftir að kjörfundi lýkur,” segir hann. „Við reynum hvað við getum til þess að ná þessu sem fyrst í hús til þess að góð blöndun á talningu atkvæða geti farið fram.” 

 

sunnav's picture
Sunna Valgerðardóttir
Fréttastofa RÚV