Athugið þessi frétt er meira en 9 ára gömul.

Ekki lengri tími til að fjölga konum

03.03.2013 - 12:27
Mynd með færslu
 Mynd:
Steingrímur J. Sigfússon atvinnuvegaráðherra leggst gegn því að lífeyrissjóðir fái aukinn frest til að innleiða kynjakvóta í stjórnum sínum. Stórum og burðugum aðilum eins og lífeyrissjóðum eigi ekki að vera neitt að vanbúnaði að jafna kynjahlutföll.

Í september 2011 samþykkti Alþingi að setja mörk um lágmarkskynjahlutföll í stjórnum lífeyrisstjóða. Þegar ákvæðið tekur gildi 1. september næstkomandi skal tryggt að hlutfall hvors kyns verði minnst 40 prósent í stjórnum sem eru skipaðar fleiri en þremur. Stjórn Landssamtaka lífeyrissjóða vill að sjóðirnir fái lengri frest. Þórey S. Þórðardóttir, framkvæmdastjóri Landssamtaka lífeyrissjóða, segir að ákveðnir sjóðir sem hafa átt frekar erfitt með að uppfylla þetta ákvæði og þurfa frekari tíma til þess að aðlagast þessari breytingu.

Steingrímur J. Sigfússon, atvinnuvegaráðherra, leggst gegn því að sjóðirnir fái aukinn frest. „Svarið er einfalt. Nei, ég sé nú ekki ástæðu til þess að veita lengri, ríkulegri aðlögunartíma en þegar er búið að gera. Það hefur verið unnið kynningarstarf og menn hafa verið hvattir til þess núna samfellt í eitt og hálft til tvö ár að undirbúa sig fyrir þetta, þannig að ég held þá að mönnum eigi ekki að vera neitt að vanbúnaði, og allra síst stórum og burðugum aðilum eins og lífeyrissjóðunum, að takast á við þetta.“