Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Ekki kúr heldur varanleg lífsstílsbreyting

15.10.2014 - 22:24
Mynd með færslu
 Mynd:
Mynd:  / 
Guðlaugur Birgisson, sérfræðingur á offitusviði Reykjalundar, segir meðferð þar ekki kúr heldur varanlega lífsstílsbreytingu. Lífshættulegir sjúkdómar geti fylgt offitu á háu stigi en atferlismeðferð á Reykjalundi hafa sýnt markverðan árangur.

„Það sem við erum að reyna að vinna að hérna á Reykjalundi er náttúrulega varanleg lífsstílsbreyting ekki eitthvað átak til skemmri tíma. Heldur að vinna að varanlegri lífsstílsbreytingu hjá þessum einstaklingum,“ segir Guðlaugur.

Í fréttum í gær sögðum við frá Gróu Axelsdóttur sem fór í meðferð við offitu á Reykjalundi. Hún er hluti af ört stækkandi hópi en um 100 manns sækja meðferðina árlega.

Sífellt yngra fólk sækir í meðferð
Guðlaugur hefur fylgt þessum hópum í gegnum meðferðina ásamt hópi fagfólks - hjúkrunarfræðingi, lækni, iðjuþjálfa, sálfræðingi og fleirum. Þeirra mat er að sífellt yngra fólk sæki í meðferðina en hún hefur verið í boði frá 2001.

Þeir sem fara í meðferð sem þessa eru komnir á það stig að offitan telst heilsufarslega ógnandi. „Helstu sjúkdómarnir sem fylgja oft offitunni geta verið lífshættulegir eins og hjartasjúkdómar, sykursýki, háþrýstingur, kæfisvefn og fleira í þeim dúr. Oft og tíðum er fólk komið með þessa fylgikvilla, ekki í öllum tilvikum en oft og tíðum,“ segir Guðlaugur. „Svoleiðis að maður gerir sér grein fyrir að það er í mjög erfiðum málum, margir hverjir. Þegar þetta er komið á þetta stig þá er vandamálið orðið fjölþætt ekki bara tengt hreyfingu eða mataræði eða andlegu hliðinni heldur allt í senn.“

Líkamsrækt á Reykjalundi.

Léttast um 7 til 44 kílóum eftir gerð meðferðar
Guðlaugur lauk nýverið rannsókn á árangri meðferðarinnar. Hann fylgdi eftir hópi í fjögur ár frá upphafi meðferðar á Reykjalundi. Hann segir ólíkan árangur eftir því hvort fólk fari í magahjáveituaðgerð eða ekki. Fleiri kíló fari hjá þeim sem taki aðgerðina meðfram meðferð. „Þeir sem gerðu það voru 44 kílóum léttari 4 árum eftir upphaf meðferðar. Það er þremur árum eftir aðgerðina sjálfa. Hinir sem ekki höfðu farið í þannig aðgerð voru 7-8 kg léttari fjórum árum eftir upphaf meðferðarinnar.“

Það kann að virðast lág tala þegar vandi vegna offitu er orðinn svo fjölþættur. Guðlaugur segir þó árangurinn góðan í samburði við álíka meðferðir. „Ef maður ber þetta saman við erlendar rannsóknir þá er þetta með betri árangri, þessi árangur, og minnir okkur á að þessi meðferð er í eðli sínu erfið. Sérstaklega fyrir þá sem ekki fara í aðgerðina. það þarf að töluvert til að breyta lífstíl fólks varanlega. en með því að létta sig 5-10% af líkamsþunga þá hefur það sýnt sig að fólk er farið að hafa áhrif á heilsufarslegar breytur. Þannig að þetta er markverður árangur.“