Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Ekki kosið um sameiningu á Snæfellsnesi í bráð

Grundarfjörður Vesturland
 Grundarfjörður Vesturland
 Mynd: Jóhannes Jónsson Jóhannes Jó
Ekkert verður af íbúakosningum um sameiningu þriggja sveitarfélaga á Snæfellnesi fyrir sveitarstjórnarkosningar í vor. Þetta er niðurstaða samstarfsnefndar um mögulega sameiningu.

Mat nefndar að kjósa ekki um sameiningu

Í samstarfsnefndinni eru þrír fulltrúar hvers sveitarfélags, Grundarfjarðarbæjar, Helgafellssveitar og Stykkishólmsbæjar. KPMG gerði skýrslu um kosti og galla sameiningar en í ljósi skýrslunnar og niðurstöðu Jöfnunarsjóðs um fjárframlög vegna sameiningarinnar þá er það mat nefndarinnar að ekki sé hægt að kjósa um sameiningu fyrir sveitarstjórnarkosningar í vor. 

Reglur Jöfnunarsjóðs henti ekki

Þorsteinn Steinsson er bæjarstjóri Grundarfjarðarbæjar og situr jafnframt í samstarfsnefndinni: „Þá eru þau jöfnunarframlög sem að jöfnunarsjóðurinn reiknar út ekki nógu hagfelld fyrir þessa sameiningu. Það væri mun heppilegra ef annað sveitarfélagið væri skuldlaust og hitt skuldaði mikið þá væru þau framlög mun hærri.“ Þrátt fyrir heildarhagsmuni með sameiningu fái tvö sveitarfélög í erfiðri stöðu ekki háa skuldarniðurfellingu, samkvæmt núgildandi reglum Jöfnunarsjóðs. „Ég tel að með því að vera stærri þá sé hægt að veita öflugri þjónustu inni í framtíðina en það þarf þá að vera fjárlegslega sterkt til að veita þá þjónustu með góðum hætti.“

Vilja koma athugasemdum á framfæri við ráðuneyti

Samstarfsnefndin leggur nú til að ráðist verið í viðræður við ráðuneyti sveitarstjórnarmála um aðkomu ríkisvaldsins og koma athugasemdum sínum á framfæri. Þorsteinn segir að búið sé að leggja mikla vinnu í undirbúning sem að sé vilji til að nýta áfram. „Í rauninni er samvinna mjög mikil hérna á Nesinu og menn vilja vinna saman, það er bara spurning hvernig.“

 

Bókun samstarfsnefndarinnar má lesa hér í heild sinni:

Samstarfsnefnd um mögulega sameiningu sveitarfélaganna Grundarfjarðarbæjar, Helgafellssveitar og Stykkishólmsbæjar hefur aflað gagna og rætt um ýmsa þætti sem tengjast mögulegri sameiningu sveitarfélaganna.  Sveitarfélögin fengu ráðgjafafyrirtækið KPMG til þess að afla gagna og vinna skýrslu fyrir sameiningarnefndina og hefur hún verið kynnt fyrir sveitarstjórnum.

Í ljósi þessara gagna og niðurstöðu Jöfnunarsjóðs um framlög vegna sameiningarinnar sem byggja á núgildandi reglum sjóðsins telur nefndin ekki forsendur til að ná fram niðurstöðu í vinnuna þannig að hægt sé að kjósa um sameiningu fyrir sveitarstjórnarkosningar á næsta ári.

Nefndin leggur til að á vegum sveitarstjórnanna þriggja fari fram viðræður við ráðuneyti sveitarstjórnarmála þar sem gerð verði grein fyrir afstöðu sameiningarnefndarinnar.  Vísar nefndin einnig til skýrslu ráðuneytisins um stöðu og framtíð íslenskra sveitarfélaga frá september sl. þar sem m.a. er lagt til að ráðuneyti sveitarstjórnamála taki markvissari þátt í verkefninu um styrkingu sveitarstjórnarstigsins og fjárfesti í því.