Athugið þessi frétt er meira en 6 ára gömul.

Ekki kosið um ESB samhliða þingkosningum

17.03.2015 - 08:12
Mynd með færslu
 Mynd: Anton Brink RÚV - RÚV Anton Brink
Mynd: Anton Brink RÚV / RÚV Anton Brink
Utanríkisráðherra segir að ríkistjórnin líti svo á að aðildarumsókn að ESB sé lokið, með bréfinu sem hann afhenti forsvarsmönnum sambandsins á föstudag. Hann segir eðlilegt að ekki verði sótt um aftur nema að undangenginni þjóðaratkvæðagreiðslu, hún fari þó ekki fram samhliða þingkosningum 2017.

Gunnar Bragi Sveinsson utanríkisráðherra var gestur í Morgunútgáfunni. Hann segir að þó aðildarumsókninni sé lokið þurfi Evrópusinnar engu að kvíða því fulltrúar Evrópusambandsins hafi sagt að engum dyrum hafi verið lokað. 

Gunnar Bragi segir að eðlilegt verði að spyrja þjóðina álits áður en reynt verði aftur að semja við ESB um aðild. „Það er hollt fyrir menn að velta fyrir sér ef einhverjir færu af stað í þetta ferli á ný hvort að; í fyrsta lagi að einhverjum dytti í það hug án þess að tala við þjóðina, í öðru lagi að reyna að tryggja aðeins betri samstöðu og meirihluta um þá umsókn. Okkar skoðun er sú að það þurfi að byrja þetta ferli upp á nýtt. En það er hins vegar eitthvað sem þarf að koma í ljós í framtíðinni.“ 

Aðspurður um hvort greiða ætti atkvæði um slíkt samhliða þingkosningum eftir tvö ár svarar Gunnar Bragi neitandi. „Ég er ekki hrifinn af því að blanda saman tvennum kosningum um ólíka hluti. Við vitum það alveg að annað hvort verður að algjöru aukaatriði, hvort sem það verða þingkosningarnar eða þjóðaratkvæðagreiðslan. Ef menn ætla að gera eitthvað slíkt á næsta kjörtímabili er betra að hafa það bara beint út. Næstu kosningar munu að mínu viti vonandi bara snúast um hlutina sem við erum að fást við í dag. Um efnahagsmálin, um heimilin um atvinnumálin og framtíðina, hvernig að við ætlum að byggja þetta land upp. Því að mér heyrðist flestir vera sammála um það að á næstu árum verði það ekki innan Evrópusambandsins,“ sagði Gunnar Bragi Sveinsson í Morgunútgáfunni.

Fjalla á um bréf utanríkisráðherra til Evrópusambandsins á fundi utanríkismálanefndar klukkan hálf níu og ráðherra flytur Alþingi munnlega skýrslu um Evrópumál á þingfundi í dag eftir hádegið.