Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Ekki hræða heldur fræða

22.10.2017 - 19:36
Mynd: RÚV / RÚV
Ungt fólk verður óttaslegið við umræðu um loftslagsmál. Ekki er nóg að hræða heldur verður einnig að fræða og leggja til lausnir, segja tvær unglingsstúlkur sem deildu viðhorfum sínum á Umhverfisþingi á föstudag.

Umhverfismál voru rædd frá hinum ýmsu sjónarhornum á Umhverfisþingi á föstudag. Ráðherra, forstjórar ríkisstofnana og veðurfræðingar töluðu og svo stigu í pontu þriðja árs nemar við Menntaskólann í Hamrahlíð, þær Bríet Felixdóttir og Saga Rut Sunnevudóttir. 

„Og munum tala um umhverfið frá okkar sjónarhorni, unga fólkinu, unglingunum eða hvað það er sem þið kallið okkur,“ sögður þær stöllur úr pontunni á Umhverfisþinginu.

Bríet og Saga fóru nýverið að rýna í umhverfismálin. „Þegar maður heyrir þetta í fréttum þá er þetta oftast fréttir um hvað gerðist vegna loftlagsmála. Það er ekkert: En til þess að stoppa þetta þurfum við að gera þetta. Þannig að okkur finnst að það megi koma í samfélagsmiðla, í fréttir, hvað við getum gert þetta til þess að stoppa þetta og ekki bara að hafa neikvæða partinn þarna, svo fólk er bara byrjað að vera mjög hrætt við þetta og búið að missa alla von um að eitthvað geti gerst,“ segir Bríet. 

Hafið þið upplifað það þannig að þið verðið pínu smeykar þegar verið er að tala um þessi mál? „Já, algjörlega. Maður heyrir þetta svo mikið svona neikvætt,“ segir Saga. 

Þá furða þær stöllur sig á því að ekki sé meiri kennsla um umhverfismál og loftlagsbreytingar. „Í einstaka framhaldsskólum eru einhverjir áfangar en það eiginlega ekkert í grunnnáminu eiginlega,“ segir Saga. 

Til þess að knýja fram breytingar á þessu hafa þær hafi undirskriftasöfnun.