Athugið þessi frétt er meira en 5 ára gömul.

Ekki heimilt að stöðva umferð fólks að Hvalá

25.06.2018 - 10:35
Hvalárfossar í Hvalá. Myndin er tekin í júlí 2017.
 Mynd: Lára Ómarsdóttir - RÚV
Ólafur Valson, kaupfélagsstjóri í Árneshreppi, segir að Pétri Guðmundssyni frá Ófeigsfirði sé ekki heimilt að hamla umferð fólks að Hvalá. Pétur lokaði veginum með dráttarvél til að koma í veg fyrir að náttúruverndarsinnar komust í gegn. Ólafur segir að vegurinn sé á forsjá Vegagerðarinnar. Rætt var við hann í Morgunútvarpinu á Rás 2.

Pétur lýsti því hvernig hann lokaði veginum fyrir öfgafullum náttúruverndarsinnum í Morgunútvarpinu fyrir helgi. Þar sagði hann að hinn venjulegi flækingur væri velkominn. „En þegar menn eru farnir að selja ferðir þarna norður og fénýta sér eign mína og fjölskyldu minnar þá finnst mér mælirinn fullur. Og ég er að loka þessu bara fyrir örfáa menn.“ 

Ólafur segir að það sé synd að Pétur taki þennan pól í hæðina. Árneshreppur sé brothætt byggð og mikil þörf fyrir nýsköpun inn í hreppinn til þess að hamla því að byggðin leggist af. „Það ætti að vera til hagsbóta fyrir samfélagið að reyna að fá fólk til að stoppa í hreppnum. Til þess að gera það þarf að bjóða upp á einhverja afþreyingu og eitt af því gæti til dæmis verið það að keyra fólkinu að ósum Hvalár og labba með það um þetta svæði.“

„Þannig að það er nú svolítil synd að hann skuli taka þennan pól í hæðina og kannski hreinlega hamla því að byggðin geti lifað af.“

 

Með því að gera þetta þá stoppar hann alla keyrandi umferð þarna um? „Já, þetta er nú landsvegur F649, þetta er vegur sem er á vegaskrá. Allir vegir sem eru á vegaskrá þeir eru á forsjá Vegagerðarinnar. Pétur hefur ekkert yfir þessum veg að segja.“

Vegurinn F649 liggi alla leið að Hvalárósum að göngubrúnni yfir Hvalá. „Og auðvitað er engum heimilt að stöðva eða hamla umferð fólks um svoleiðis veg. Þannig að hann er í algeru leyfisleysi að gera þetta maðurinn.“