Athugið þessi frétt er meira en 6 ára gömul.

Ekki hætt í stjórnmálum

24.10.2015 - 12:01
Mynd með færslu
 Mynd: RUV
Hanna Birna Kristjánsdóttir, fráfarandi varaformaður Sjálfstæðisflokksins, sagði nú á ellefta tímanum, þegar hún flutti landsfundi Sjálfstæðisflokksins skýrslu sína, að ákvörðun hennar um að gefa ekki kost á sér til endurkjörs hefði hvorki verið einföld né auðveld.

„Stundum er það svo, kæru vinir, að kaldir vindar hafa blásið svo lengi, að jafnvel þær sem þykja extra harðgerar hægrikonur, og eru jafnvel kallaðar ísdrottningar þegar þannig liggur á mönnum, velja að stíga til hliðar,“ sagði Hanna Birna í ræðu sinni, en ítrekaði að hún yrði áfram í stjórnmálum. „Ég er fyrsti þingmaður Reykvíkinga. Ég verð áfram í forystusveit Sjálfstæðisflokksins. Mér finnst ég vera í draumstarfinu og það eru engar dramatískar breytingar í undirbúningi á því í bráð. En trúið mér. Ég er í stjórnmálum og ætla að starfa þar áfram og verð á þeim vettvangi áfram.“

Hanna Birna sagði þetta vera síðustu ræðu hennar sem varaformanns, að minnsta kosti í bili, og það hefðu verið forréttindi að gegna því embætti. Fyrir það væri hún þakklát. Hanna Birna fékk dynjandi lófatak að lokinni ræðu sinni, sem minnti frekar á framboðsræðu en skýrslu varaformanns, og risu fundargestir úr sætum.

johannav's picture
Jóhanna Vigdís Hjaltadóttir
Fréttastofa RÚV
Hólmfríður Helga Sigurðardóttir
Fréttastofa RÚV